Gert er ráð fyrir því að aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nokkuð á næstu áratugum, hlutfall aldraðra hækki. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að þetta auki álag á lífeyrissjóði, greiðslur úr þeim aukist verulega á næstu áratugum en minni hluti þjóðarinnar greiði í þá en nú er.
Íslendingar verða orðnir 300 þúsund árið 2007 en 350 þúsund rúmum 30 árum síðar árið 2040 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar.
Spáin gerir ráð fyrir því að frjósemi þjóðarinnar verði óbreytt frá því sem er nú og flutningur fólks til og frá landinu svipaður. Ein af forsendum hennar er að lífslíkur karla haldi áfram að batna meira en lífslíkur kvenna. Konur verða nú rúmlega 81 árs að meðaltali og karlar 77 ára. Eftir tæp 40 ár geta konur vænst þess að verða tæplega 83 ára en karlar rúmlega áttræðir að meðaltali. Hækkun á meðalaldri karla undanfarna áratugi má rekja til þess að færri deyja nú úr hjarta- og æðasjúkdómum og vegna slysa. Dánartíðni karla af þessum sökum hefur löngum verið hærri en kvenna. Lífslíkur þeirra sem orðnir eru 85 ára haldast svipaðar og hafa gert það undanfarin 20 ár. Á síðustu öld fjölgaði þjóðinni mjög mikið. Hún nánast tvöfaldaðist á fyrri helmingi 20. aldar og aftur á seinni helmingnum. Mest var fjölgunin um miðbik aldarinnar. Á síðustu áratugum hefur nokkuð dregið úr henni en Íslendingar eru með yngstu Evrópuþjóðum, enn er hlutfall barna og unglinga af þjóðinni mjög hátt miðað við Evrópusambandslöndin. Gert er ráð fyrir því að aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nokkuð á næstu áratugum, hlutfall aldraðra hækki. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að þetta auki álag á lífeyrissjóði, greiðslur úr þeim aukist verulega á næstu áratugum.