„Við tökum fjármálaákvarðanir daglega og sumar þeirra hafa áhrif mestalla ævina. Þess vegna er eðlilegt að fræðsla um fjármál sé liður í kjarnanámi í skólakerfinu en ekki sérnám í til dæmis viðskiptafræði eða hagfræði" segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og höfundur nýútkominnar bókar, Lífið er rétt að byrja. Þar fjallar hann um grunnatriði í fjármálum einstaklinga á þann hátt að kjörið er til að nota í kennslu.
Forlagið Framtíðarsýn hf. gaf á árinu 2015 út bókina Lífið er framundan þar sem Gunnar skrifar á aðgengilegan hátt um leiðir í fjármálum fyrir þá sem eru að hefja búskap og fara út á vinnumarkaðinn. Hann hafði í huga að bókin gæti nýst í kennslu í háskólum en að fróðleikurinn gagnaðist samt ungu fólki yfirleitt og þess vegna öllum sem vildu auka við fjármálaþekkingu sína á hvaða aldri sem væru. Gunnar hafði áður sent frá sér bókina Verðmætasta eignin árið 2004 um lífeyrismál og núna í byrjun árs 2017 gaf Framtíðarsýn út Lífið er rétt að byrja. Nýja bókin er hugsuð fyrir framhaldsskólanema og jafnvel tíundubekkinga í grunnskólum að einhverju leyti líka.
Gunnar hefur skrifað ótal blaðagreinar um lífeyrismál og fjármál og nú eru bækurnar hans um þessi brýnu málefni sem sagt orðnar þrjár talsins. Skilyrði fyrir því að ganga í Rithöfundasamband Íslands eru meðal annars þau að hafa birt „tvö fræðirit, frumsamin eða þýdd, er teljast hafa ótvírætt fræðslu- og menningargildi“. Þetta hefur Gunnar svo sannarlega uppfyllt og hann gæti því sem best bætt á sig starfstitlinum rithöfundur ef hann bara kærði sig um!
„Við útgefandinn urðum varir við það þegar Lífið er framundan kom út að margir vildu fá hliðstæða fjármálabók fyrir yngra fólk. Ég ákvað að byrja að skrifa og hafði fyrst í huga 30-40 blaðsíðna kennslukver sem gæti nýst fyrir tíunda bekk grunnskóla og í framhaldsskólum. Þetta varð á endanum hátt í 150 síðna bók sem ég vonast til að verði notuð við kennslu í framhaldsskólum á næsta skólaári.
Við vorum að opna upplýsingavef til stuðnings bókinni þar sem kennarar geta nálgast glærur, spurningar og svör og dæmi í Excel-skjölum. Reyndar hef ég búið til á fjórða hundrað glærur úr báðum “Lífsbókunum“ sem verður þarna að finna, á framtidarsyn.is.
Svo hefur verið ákveðið og samið um að valdar opnur úr nýju bókinni, Lífið er rétt að byrja, verði gefnar út í sérstöku kveri fyrir grunnskólann. Þetta efni verður kennt til reynslu í tíunda bekk í fjórum til fimm skólum. Ef reynslan verður jákvæð er hugsanlegt að kverið verði nýtt til kennslu fyrir alla tíundubekkinga í grunnskólum landsins.“
Það einkennir báðar bækurnar um fjármál ungs fólks að þær eru afar lesvænar. Höfundur skrifar aðgengilegan og auðmeltan texta. Skipulag nýju bókarinnar er þannig að hver efniskafli er í einni opnu sem gerir það að verkum að hægt er að grípa niður hvar sem er og lesa sér til gagns afmarkaðan texta í samhengi.
Hönnun nýju bókarinnar er afar vel heppnuð og gefur henni létt yfirbragð með grafískri uppsetningu á töflum og teikningum og skemmtilegri notkun lita. Þannig kallast skemmtilega á litir í ljósmyndum og grafík við upphaf hvers efniskafla.
Aftast í bókinni er kafli með formúlum og dæmum og þar er líka vel þegið orðskýringasafn á fjórtán blaðsíðum. Velkist einhver í vafa um hvað átt sé við með því að tala um „styrkingu krónunnar“, „kaupmátt“ eða „verðhjöðnun“ fær sá hinn sami svör í knöppu en skýru formi.
„Ég studdist að einhverju leyti við reynsluheim eigin barna og vina þeirra við skriftir og dæmi sem tekin eru. Til dæmis mæli ég með því í nýju bókinni að ungt fólki gangi sjálft frá skattaskýrslum sínum og leiti sér aðstoðar við skattframtalið og að skilja launaseðla. Auðvitað er miður ef námsfólk skilur ekki launaseðlana sína í sumarvinnunni eða áttar sig ekki á því hvers vegna það fær endurgreitt frá skattinum! Út af fyrir sig er slíkt eðlilegt, enginn kennir ungmennunum þessa hluti.
Í bókunum hvet ég til sparnaðar og að ungt fólk bíði frekar með fjárfestingar þar til það hefur lagt meira fyrir. Mér finnst of margir námsmenn safna námslánaskuldum og taka ýmis neyslulán að auki. Umboðsmaður skuldara upplýsti fyrir jól að talsvert væri um að ungt fólk lenti í vandræðum vegna neyslulána, einfaldlega af því að of auðvelt er að fá lán og vegna lítillar fræðslu um fjármál.
Foreldrar geta stutt börn sín með því að þau búi hjá þeim og leggi frekar fyrir á meðan. Það getur skipt ótrúlega miklu máli fyrir afkomu ungmenna til skemmri eða lengri tíma að fá slíkan stuðning í foreldrahúsum frekar en að þau fari út á leigumarkaðinn og borgi húsaleigu með námslánum.
"Kannski hljómar það eins og hjakk í bilaðri plötu að segja að sparnaður sé dyggð en er einfaldlega staðreynd og hollt ráð!“