Landsbanki Íslands og önnur aðildarfyrirtæki Lífeyrissjóðs bankamanna hafa undirritað samning um lausn á rekstarvanda hlutfallsdeildar Lífeyrissjóðs bankamanna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Samningurinn er gerður í framhaldi af viðræðum milli Lífeyrissjóðs bankamanna og aðildarfyrirtækja sjóðsins varðandi uppgjör á lífeyrisskuldbindingum við breytingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands í hlutafélög í ársbyrjun 1998.
Landsbankinn hefur þegar lagt fyrir fjárhæð sem nægir til greiðslu þess kostnaðar sem af samningnum hlýst fyrir bankann. Gerð samningsins eyðir þannig óvissu um kröfur hlutfallsdeildar Lífeyrissjóðs bankamanna á hendur Landsbankanum en hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu Landsbankans á fjórða ársfjórðungi, segir í tilkynningu frá bankanum.
Auk Landsbankans á Seðlabanki Íslands, Reiknistofa bankanna, Greiðslumiðlun h/f og Fjármálaeftirlitið aðild að umræddu samkomulagi.
Sjá hér tilkynningu Landsbankans til Kauphallarinnar.