Landssamtök lífeyrissjóða birta hér með eftirfarandi opið bréf til þingmanna Sjálfstæðisflokksins frá Bjarna Þórðarsyni, tryggingastærðfræðingi:
"Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í málflutningi Sjálfstæðis- manna undanfarið að mínu mati og er það miður. Nú sýnist mér þó sem steininn taki úr því lagt er til að innheimta fyrirfram skatta af lífeyrisgreiðslum sem greiðast eiga í fjarlægri framtíð. Og hver á að borga brúsann? Nú, hvað meina ég? Jú, þegar skatttekjur framtíðarinnar dragast saman vegna lækkandi skatttekna frá lífeyrisþegunum verður að hækka skattprósentuna, m.a. af skattlögðum lífeyri þeirra sem jafnframt fá skattfrjálsan lífeyri. En hverjir munu fá mestu hækkunina? Jú, það er unga fólkið sem í dag á hvað erfiðast með lánin sín."
"Raunverulega gengur tillagan út á það að skipta lífeyriskerfinu í tvo hluta. Annar hlutinn, skattahlutinn, verður í svokölluðu gegnumstreymiskerfi og ríkið hirðir það fé strax og eflaust til einhverra nytsamra hluta. Hinn hlutinn, lífeyrishlutinn, verður í sjóðmyndunarkerfi eins og því sem allt frjálsa lífeyrissjóðakerfið byggist nú á, og það á þá að greiða skattfrjálsan lífeyri vegna þeirra réttinda sem myndast í framtíðinni.
Ef til vill má þakka fyrir að tillagan gengur ekki út á að breyta öllu kerfinu í gegnumstreymiskerfi, þ.e. að nýju deildirnar sem eiga að annast lífeyrisgreiðslurnar skattfrjálsu, myndu skila öllum iðgjöldum sem ekki færu í lífeyrisgreiðslur og kostnað til ríkissjóðs. Þá yrði eflaust kátt í einhverri höll en það yrði væntanlega ekki langvinn gleði. Það kæmi að skuldadögunum þegar fram líða stundir og þá yrði baggi hinnar ungu kynslóðar dagsins í dag býsna þungur. En gerið ykkur grein fyrir að bagginn verður þungur þótt aðeins sé um skattahlutann að tefla.
Lífeyriskerfið okkar í dag er eins sterkt og raun ber vitni vegna þess að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði en veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og flestar þjóðir gera í mjög ríkum mæli (og almanntryggingakerfið okkar er dæmi um).
Nei, ágætu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, látið núverandi kerfi í friði og veltið ekki meiri skuldbindingum yfir á hina ungu kynslóð. Hennar vandi er nægur nú þegar og ástæðulaust að binda henni þyngri bagga til langrar framtíðar en þörf krefur.
Verið þess fullvissir að fjármunir þessir munu í vörzlu lífeyrissjóðanna taka fullan þátt í endurreisn þjóðarhags."