Langvinnt lófatak að undirskrift lokinni

Starfsfólk Landspítala gaf það ákveðið til kynna í dag að hátíð væri þar í bæ í tilefni undirskriftar viljayfirlýsingar  20 lífeyrissjóða og þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar til undirbúnings nýjum spítala við Hringbraut. Fánar blöktu við hún á spítalalóðinni, sjálfri undirskriftinni var fagnað á vettvangi með langvinnu lófataki og boðið var upp á góðgæti með síðdegiskaffinu í mötuneytinu.


Fullltrúar ríkisstjórnarinnar fögnuðu áfanganum í ávörpum sínum. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra sagði að sér hefði komið á óvart „kröftug viðbrögð“ lífeyrissjóða og vísaði þar  til þess að yfir 83% heildareigna lífeyrissjóða landsins stæðu að baki viljayfirlýsingunni. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að nú væri einmitt rétti tíminn til að ráðast í stórframkvæmdir af þessu tagi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra rifjaði upp að konur í Reykjavík hefðu á sínum tíma safnað fjármunum til að borga framkvæmdir við Landspítalann. Nú væri í bígerð að reisa nýjan Landspítala í krafti söfnunarfjár allra landsmanna, þ.e. lífeyrissjóðanna.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, hafði orð fyrir fulltrúum lífeyrissjóðanna sem undirrituðu yfirlýsinguna og sagðist líta á Landspítalamálið „fyrst og fremst sem samfélagslegt verkefni af okkar hálfu, að uppfylltum skilyrðum um viðunandi arðsemi. Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús, lykilþáttur í okkar góða heilbrigðiskerfi og í menntun heilbrigðisstarfsfólks. 

Fjöldi fólk var viðstaddur athöfnina í dag. Áður var kynning í fundarsal Landspítala fyrir lykilstjórnendur, alþingismenn og fleiri þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins og inntak viljayfirlýsingarinnar. Frummælendur voru Björn Zoega forstjóri af hálfu Landpítala og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa, fyrir hönd lífeyrissjóðanna.