Landssamtökin styrkja rannsóknir á starfsorkumissi

Landssamtök lífeyrissjóða ætla að styrkja Guðmund Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, til að rannsaka ítarlega hvernig lífeyrissjóðir standa að því að meta starfsorkumissi sjóðfélaga sinna og bera saman matsaðferðir og niðurstöður lífeyrissjóðanna annars vegar og varanlega örorku samkvæmt skaðabótalögum. Frá þessu var greint á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í gær um leið og Guðmundur fékk afhenta staðfestingu á ákvörðun stjórnar samtakanna.]

Sá grundvallarmunur er á örorkumati fyrir lífeyrissjóði og mati á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum að mat fyrir lífeyrissjóði er í raun tímabundið og getur því breyst ef aðstæður sjóðfélaga breytast en mat á fjarhagslegri örorku, samkvæmt skaðabótalögunum, er endanlegt þar sem verið er að meta áhrif slyss á vinnugetu það sem eftir er starfsævinnar.

Vegna þessa mismunar er ástæða til að ætla að raunveruleg tekjutap sjóðfélaga á þeim tímapunkti, sem mat fer fram, hafi meira vægi við mat á starfsorkumissi en varanlegri fjárhagslegri örorku.

Í rannsókn Guðmundar er gert ráð fyrir að velja ákveðinn fjölda sjóðfélaga sem lenti í vinnuslysum á árunum1994 til 1996 og kortleggja hvernig staðið var að því að meta afleiðingar þessara slysa hjá lífeyrissjóðunum og á grundvelli skaðabótalaganna.

Ljóst er að þessi rannsókn krefst mikillar vinnu Guðmundar, að fengnu leyfi Persónuverndar. Í þessu sambandi verður einnig kannað hvort ekki sé eðlilegt að sama orkumissis- og örorkuhugtak sé lagt til grundvallar hjá lífeyrissjóðunum, almannatryggingum, í slysa- og sjúkratryggingum, hjá vátryggingafélögunum og samkvæmt skaðabótarétti. Slíkt fyrirkomulag gæti  einfaldað málsmeðferð bótamála til.

Stefnt er að því að kynna niðurstöður rannsóknarinnar innan eins árs.