Landssamtök lífeyrissjóða mótmæla skerðingu grunnlífeyris almannatrygginga

Frá og með 1. júlí s.l skerðir lífeyrir úr lífeyrissjóðunum grunnlífeyri almannatrygginga, sem fram til þessa hefur verið látinn í friði, þegar kemur til skerðingar á bótum almannatrygginga.  

Með því að skerða grunnlífeyrir vegna ellilífeyris frá lífeyrissjóðunum er farið inn  á nýjar brautir varðandi samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Fram til þessa hefur tekjutrygging lækkað umtalsvert vegna lífeyrissjóðstekna og hafa lífeyrissjóðirnir og þau hagsmunasamtök að þeim standa varað eindregið við óhóflegri skerðingu á tekjutryggingu almannatrygginga vegna bóta frá lífeyrissjóðunum.
Landssamtök lífeyrissjóða mótmæla nú sérstaklega þessari skerðingu á grunnlífeyri almannatrygginga. Það sé til lítils að skylda starfandi fólk að greiða iðgjöld til lífeyrissjóða, ef séð verður að viðkomandi sjóðfélagar fái alls engar bætur eða mjög skertar bætur frá almannatryggingum.

 Á ráðstefnu Alþýðusamband Íslands um velferðarkerfið sem haldin var fyrir nokkrum árum kom fram sú eindregna skoðun ræðumanna, að ekki mætti einskorða bætur almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á svið velferðar- og lífeyrismála, Joakim Palme, dró í erindi sínu dökka mynd af því ástandi sem myndaðist þegar velferðarkerfi væru aðeins hugsuð sem aðstoð fyrir þá allra verst settu í þjóðfélaginu.

Afleiðing slíks kerfis væri sú að mati Palme að velferðarkerfið væri svelt, vandkvæði tengd neikvæðri stimplun styrkþega kæmi upp auk fátæktargildra. Því meira sem bætur eru lágtekjumiðaðar, því lægri verður upphæðin sem er til ráðstöfunar, þ.e. því meiri áhersla verður lögð á að beina bótum aðeins til hinna fátækustu í samfélaginu, því minni árangri nær velferðarríkið í því að draga úr ójöfnuði.

Landssamtök lífeyrissjóða taka undir þessa skoðun og telja að almannatryggingar, eins og nafnið gefur til kynna, eigi að greiða öllum landsmönnum ótekjutengdan grunnlífeyri, en megi alls ekki vera eins konar fátækrastofnun fyrir þá sem eru verst settir þjóðfélaginu.  Samtökin skora því á stjórnvöld að finna aðrar leiðir til að afla ríkissjóði tekna, heldur en að skerða grunnlífeyri vegna lífeyrissjóðstekna.

Í viðamikilli skýrslu sem byggð er á rannsóknum á lífeyriskerfum víða um heim og á ástandi og horfum í lífeyrismálum (1994) leggja sérfræðingar Alþjóðabankans áherslu á lífeyriskerfi sem byggt er á þremur stoðum:

 

·        1. stoð: Opinbert kerfi með skylduaðild, fjármagnað með sköttum. Þetta svarar til almannatryggingakerfisins hér á landi.

·        2. stoð: Uppistaða kerfisins verði sjóðssöfnunarkerfi með skylduaðild. Það sé rekið utan opinbera geirans en undir opinberu eftirliti. Þetta svarar til almennu lífeyrissjóðanna hér á landi.

·        3. stoð: Frjáls einstaklingsbundinn sparnaður. Á t.d. við um sparnað einstaklinga hjá séreignarsjóðum.

 

Augljóst er að íslenska lífeyriskerfið uppfyllir þessa forskrift Alþjóðabankans enda stendur það að flestu leyti nokkuð vel og þykir til fyrirmyndar. Það er því ekki skynsamlegt að búa svo um hnútana að aftengja fyrstu stoðina, þ.e. bætur frá almannatryggingum gagnvart fjölda fólks sem hefur á umliðnum árum verið að vinna sér inn viðbótarlífeyrisréttindi með iðgjaldagreiðslum til skyldubundinna lífeyrissjóða. Það er til lítils að skylda starfandi fólk að greiða iðgjöld til lífeyrissjóða, ef séð verður að viðkomandi sjóðfélagar fái alls engar bætur eða mjög skertar bætur frá almanna-tryggingum.