Lækka þarf lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði bænda.

Samkvæmt niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar á stöðu Lífeyrissjóðs bænda í árslok 2002 miðað við 3,5% ársvexti þá vantar sjóðinn 1.100 milljónir króna upp á að eignir nægi fyrir áföllnum skuldbindingum eða 8,1% og 2.456 milljónir króna upp á að eignir nægi fyrir heildarskuldbindingum eða 11,9%. Er þetta milkil breyting miðað við árslok 2001, þegar heildarskuldbindingar sjóðsins voru 4,9% umfram eignir.

Lífeyrissjóður bænda hefur átt við langvarandi vanda að stríða, sem einkum má rekja til óhagstæðrar aldursamsetningar í sjóðnum og lítillar nýliðunar nýrra sjóðfélaga. Nú bætist við eins og hjá flestum öðrum sjóðum slök ávöxtun þriðja árið í röð (– 5,12% ) og ekki síður að nýjar töflur um dánarlíkur hafa tekið gildi, sem sýna fram að lífslíkur landsmanna hafa aukist verulega, sem auka þannig heildarskuldbingar lífeyrissjóðanna verulega. 

Til að bregðast við þessari stöðu, hefur stjórn Lífeyrissjóðs bænda ákveðið að lækka margföldunarstuðul niður í 1,4 úr 1,442 og stytta greiðslutíma makalífeyris í 24 mánuði, en hann er nú 36 mánuðir. Verið er að endurreikna tryggingafræðilega úttekt og verða ekki teknar fleiri ákvarðanir fyrr en því er lokið.

Af 20 stærstu lífeyrisjóðum landsins er nú vitað um fjóra lífeyrissjóði sem annað hvort hafa nú þegar eða munu á næstunni  lækka lífeyrisréttindin vegna tryggingafræðilegrar stöðu. Þessir sjóðir eru Lífeyrissjóður Norðurlands, Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður lækna og Lífeyrisjóður bænda. Rétt er þó að taka fram að sumir þessara sjóða hafa aukið réttindi sjóðfélaga verulega á síðustu árum.