Könnun LL: Erlend verðbréfakaup lífeyrissjóðanna rúmir 30 miljarðar fyrstu ellefu mánuði ársins.

Í tilefni þeirra umræðna sem verið hafa að undanförnu í fjölmiðlum um fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis, ákváðu Landssamtök lífeyrissjóða að snúa sér til stærstu lífeyrissjóðanna í landinu með ósk um að gefnar verði upplýsingar um nettókaup viðkomandi lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum á árinu 1999, svo og vegna 11 mánuði þessa árs.

Upplýsingar um nettó erlend verðbréfakaup lífeyrissjóðanna hafa fram til þessa ekki legið fyrir og t.d. gefur Seðlabankinn einungis upplýsingar um brúttókaup lífeyrissjóðanna í fyrra og aðeins upplýsingar um erlendar eignir sjóðanna í lok hvers mánaðar vegna þessa árs, en ekki um hin eiginlegu nettó mánaðarlegu viðskipti lífeyrissjóðanna við útlönd með erlend verðbréf. Lífeyrissjóðir með 84,165% af eignum í árslok 1999 tóku þátt í þessari könnun. Ef talið er að kaup annarra lífeyrissjóða (15,835% af eign) hafi verið hlutfallslega þau sömu, þá námu erlendu kaupin þessum fjárhæðum: Á árinu 1999 námu nettó erlend verðbréfakaup lífeyrissjóðanna alls 25.936 m.kr. Fyrstu 11 mánuði þessa árs námu nettó erlend verðbréfakup lífeyrissjóðanna alls 30.166 m.kr. Aukning er 16,3% (desember 2000 vantar), og er þá ekki tekið tillit til lækkunar krónunnar gagnvart dollar á þessu ári. Nettó meðalkaup lífeyrissjóðanna við útlönd með erlend verðbréf á mánuði á þessu ári hafa því numið 2.742 m.kr. á mánuði. Eins og kunnugt er urðu all verulegar umræður í fjölmiðlum og Alþingi um erlend verðbréfakaup lífeyrissjóðanna og m.a. fullyrt að hin erlendu kaup hafi stóraukist s.l. vor eftir að heimildir lífeyrissjóða til verðbréfakaupa voru rýmkaðar. Þessar fullyrðingar standast hins vegar alls ekki, þegar mánaðarleg erlend nettókaup lífeyrissjóðanna eru skoðuð á þessu ári, því kaupin jukust engan veginn á umræddu tímabili samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Þá er aukning á erlendum verðbréfakaupum lífeyrissjóðanna á þessu ári minni miðað við árið í fyrra, en látið var í veðri vaka af ýmsum aðilum. Landssamtök lífeyrissjóða þakkar þeim lífeyrissjóðum, sem tóku þátt í þessari könnun fyrir gott samstarf.