Hér í LL-FRÉTTUM hefur að undanförnu verið vitnað töluvert í könnun Samtaka evrópskra lífeyrissjóðasambanda, EFRP, (European Federation for Retirement Provision) um lífeyrissjóðina innan EFRP. Nú kemur í ljós að borið saman við önnur lönd í Evrópu þá er hlutfall skuldabréfa í eignasöfnun lífeyrissjóða hæst á Íslandi á samanburðarárunum 1993, 1995 og 1997.
Þessi niðurstaða segir okkur líka að hlutfall hlutabréfa hefur með sama hætti verið ákaflega lágt í eignasöfnum íslensku lífeyrissjóðanna. Ef skoðuð eru eignasöfn lífeyrissjóðanna innan EFRP á árinu 1997, þá skiptust eignirnar þannig: Hlutafé 53,6% Skuldabréf 32,8% Fasteignir 5,8% Bankainnistæður 7,8%. Ef skoðað er hins vegar hlutfall skuldabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóðanna, voru íslensku lífeyrissjóðirnir með hæsta hlutfallið eða 83% í skuldabréfum í árslok 1997. Þetta hlutfall nam þó 95% í árslok 1995. Sú þróun er augljós hér á landi sem og annars staðar í Evrópu að hlutfall hlutabréfa fer vaxandi í eignasöfnum lífeyrissjóðanna, var t.d. 73% í Bretlandi og 59% á Írlandi í árslok 1997. Forvitnilegt verður að bera saman hlutfall hlutabréfa í eignasöfnum lífeyrissjóðanna í Evrópu þegar könnun EFRP verður gerð vegna áranna 1998 og 1999.