Á árinu 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra starfshóp um starfsendurhæfingu. Í skipunarbréfi kemur fram að tillögur hópsins ættu að lúta að bættri þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og hafa að leiðarljósi þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa aðstoð við að fóta sig á nýjum eða breyttum
Starfshópurinn hefur nú skilað lokaskýrslu og eru megin niðurstöðurnar þessar:
- Ef starfsendurhæfingu er beitt snemma í óvinnufærniferli er hún áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku.
- Beinn fjárhagslegur sparnaður fyrir þjóðfélagið við að forða örorku hjá einum einstaklingi er um 30 milljónir króna.
- Endurskipuleggja þarf starfsendurhæfingu og auka framboð og sveigjanleika til að bregðast við breyttum þörfum á vinnumarkaði.
- Komið verðir á fót miðstöð starfsendurhæfingar. Með þessari miðstöð skapast vettvangur til að vinna frekar að málefnum starfsendurhæfingar, þvert á ríkjandi fyrirkomulag, stofnanir og hagsmunaðila til að byggja upp markvissari úrræði og fræðslu- og þjónustusetur. Lagt er til að rætt verði við hagsmunaaðila um aðild þeirra að skipulagningu og fjármögnun sameiginlegs starfsendurhæfingarkerfis með einni miðstöð til að meta starfsendurhæfingarþörf einstaklinga og vísa þeim í úrræði. Miðstöðin hafi sjálfstæða stjórn skipaða fulltrúum þeirra sem koma að verkefninu. Gert ráð fyrir að rekstur endurhæfingarmiðstöðvarinnar kosti um 40 milljónir kr. á ári. Á móti kemur um 20 milljón kr. sparnaður sem verður vegna flutnings verkefna til miðstöðvarinnar. Með betri nýtingu á starfskröftum og auknu samstarfi má gera ráð fyrir töluverðri hagræðingu og þar með óbeinum sparnaði til viðbótar. Auk þess er miðstöðinni ætlað að þjónusta fleiri einstaklinga en gert er í dag.
- Endurskoða þarf lagaákvæði um endurhæfingarlífeyri, þannig að endurhæfingarlífeyrir geti nýst þeim sem þarfnast langvarandi starfsendurhæfingar.
- Þörf er á að breyta læknisvottorðum vegna fjarvista frá vinnu, þannig að þau endurspegli tímanlega hvort þörf kunni að vera á starfsendurhæfingu.
- Hækka og samræma þarf sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun og sjúkrasjóðum. Samræma þarf greiðslur frá sveitarfélögum vegna félagslegrar framfærslu.
- Efla þarf sértækar greiðslur til atvinnulausra til að hvetja þá til náms og starfsendurhæfingar og inn á vinnumarkaðinn að nýju.
Tillögur þessar eru nú til skoðunar hjá stjórnvöldum, en ljóst er að mjög brýnt er að endurskipulegga starfsendurhæfingu, m.a. með því að koma á fót miðstöð starfsendurhæfingar hér á landi. Stöðugt vaxandi örorkulífeyrisbyrði kallar á skilvirk úrræði á sem flestum sviðum og þar á meðal er starfsendurhæfing einn mikilvægasti þátturinn, sbr. tillögur og áherslur í skýrslu örorkunefndar LL á síðasta ári.
Í starfshópinn voru skipaðir: Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir, formaður, tilnefndur af Tryggingastofnun ríkisins, Guðmundur Hilmarsson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Gunnar Kr. Guðmundsson, endurhæfingarlæknir, tilnefndur af Samstarfsráði um endurhæfingu, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Landsamtökum lífeyrissjóða, Ragnar Árnason, lögfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Sigurður P. Sigmundsson, hagfræðingur, tilnefndur af Vinnumálastofnun og Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu.