Gengið hefur verið frá kaupum Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Áreiðanleikakönnun er nú lokið. Þau fyrirtæki sem fylgja með í kaupum á Vestia eru Icelandic Group, Teymi, Húsasmiðjan og Plastprent. Kemur fram í tilkynningu að kaupverð lækki úr 19,5 milljörðum króna í 15,5 milljarða króna.
Þá lækkar hlutafjárloforð Landsbankans í FSÍ úr 18 milljörðum í 15 milljarða króna. Segir að ef stærð sjóðsins verði 60 milljarðar verði eignarhlutur Landsbankans 25%.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir í tilkynningu að viðskiptin séu mikilvægur áfangi fyrir FSÍ. „Jafnframt er það mjög mikilvægt fyrir þessi félög að ákveðinni óvissu er nú eytt varðandi þeirra eignarhald. NIðurstöður áreiðanleikakönnunar hafa styrkt okkar trú á framtíðarmöguleikum þeirra. Við hjá FSÍ munum vinna náið með stjórnendum og starfsfólki þessara félaga að því sameiginlega markmiði að tryggja aðrsemi og rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar. Með kaupunum á Vestia og áður Icelandair er FSÍ komið með eignarhluti í öflugum fyrirtækjum á breiðu sviði þar sem starfa um átta þúsund manns," segir Finnbogi.