Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá kæru Einars Þorkelssonar og Friðþjófs Þorkelssonar gegn Íslandi. Þeir kærðu til dómstólsins að skylduaðild þeirra að lífeyrissjóði bryti gegn Mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi og viðauka við sáttmálann um vernd eignarréttar.
Fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu að kærendur séu starfsmenn en jafnframt stjórnarmenn og hluthafar í trésmiðjunni K 14 hf. Aðdragandi málsins er sá að Sameinaði lífeyrissjóðurinn höfðaði mál gegn trésmiðjunni til að innheimta lífeyrisiðgjöld þeirra, en samkvæmt þágildandi lögum var öllum launamönnum og þeim sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða atvinnustarfsemi, skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Bar kærendum samkvæmt þessu að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld til Sameinaða lífeyrissjóðsins, en þeir höfðu kosið að greiða iðgjald til annars lífeyrissjóðs, Frjálsa lífeyrissjóðsins. Með dómi Hæstaréttar frá 26. september 1996 var Trésmiðjan K 14 dæmd til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld þessara starfsmanna sinna til Sameinaða lífeyrissjóðsins enda væri það ótvírætt skylt samkvæmt lögunum. Var ekki talið að skylduaðild starfsmannanna að lífeyrssjóði og takmörkun á valfrelsi þeirra um lífeyrissjóð bryti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu byggðu kærendur á því að niðurstaðan í dómi Hæstaréttar bryti gegn rétti þeirra til að standa utan félaga sem verndaður væri af 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem skylda til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld í Sameinaða lífeyrissjóðinn bryti gegn eignarréttarákvæðinu í 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann. Mannréttindadómstóllinn féllst á hvorugt kæruefnið. Hvað varðar brot gegn 11. gr. taldi dómstóllinn að skylduaðild að lífeyrissjóði væri bundin í lög, hún hefði það réttmæta markmið að stuðla að vernd réttinda annarra með stofnun samtryggingasjóða og ekki væri gengið of langt til ná þessu markmiði. Með þessu væru uppfyllt skilyrði takmarkana á félagafrelsi samkvæmt 2. mgr. 11. gr. Hvað varðaði kæru um brot á eignarréttarákvæðinu vegna greiðslu iðgjalda, taldi Mannréttindadómstóllinn að um væri að ræða almennar takmarkanir á eignarrétti sem rúmuðust innan marka 2. mgr. 1. gr. ákvæðisins um heimilar takmarkanir á þessum rétti, enda væru þær lögmæltar, settar í þágu almannahagsmuna og gengju ekki lengra en nauðsynlegt mætti telja.