Íslenska lífeyriskerfið uppfyllir meginkröfur OECD

Íslenska lífeyriskerfið uppfyllir meginkröfur OECD

Íslenska lífeyriskerfið stenst með ágætum stefnumarkandi tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um uppbyggingu lífeyriskerfa: 1) sjóðsöfnun er mikil; 2) öryggisnet almannatrygginga er mikilvægt fyrir lágtekjuhópa; 3) lífeyrisþegar framtíðarinnar fá almennt meiri lífeyri en nú er greiddur. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar á nægjanleika lífeyrissparnaðar sem Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða kynntu í dag á fjölmennum fundi á Grandhóteli í Reykjavík.

Rannsóknin er hluti fjölþjóðlegs verkefnis með samræmdri aðferðafræði um nægjanleika lífeyris í ríkjum OECD.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, ávarpaði samkomuna í upphafi og stýrði henni en Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, dró saman helstu efnisþræði og sleit fundi í lokin.

Fjórir fyrirlesarar kynntu aðferðafræði og meginniðurstöður skýrslunnar: Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu; Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur, Stefán Halldórsson, verkefnastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og Stephanie Payet, sérfræðingur hjá OECD, sem fjallaði einkum um samanburð íslensku niðurstaðnanna við önnur OCED-ríki.

Gestir í sal komu úr ýmsum áttum. Þar mátti meðal annars sjá stjórnarmenn og starfsmenn lífeyrissjóða, fulltrúa hagsmunasamtaka á vinnumarkaði og starfsmenn í opinberri stjórnsýslu og stofnunum.

Síðast en ekki síst ber að nefna að fjölmiðlar sýndu kynningunni verulegan áhuga. Fulltrúar nokkurra þeirra helstu á landsvísu sátu samkomuna frá upphafi til enda og tóku frummælendur tali.

 

Mikil sjóðsöfnun

Ísland sker sig úr að því leyti að nærri 77% af lífeyrisgreiðslum munu koma úr sjóðum sem hafa safnað eignum til greiðslu lífeyris. Í öðrum OECD-ríkjum er hlutfallið á bilinu 5-46%. Hlutur gegnumstreymiskerfis, þar sem lífeyrir er greiddur af skatttekjum ríkisins hverju sinni, verður því aðeins 23% á Íslandi en fer upp í 95% í Frakklandi, svo dæmi sé tekið.

Öryggisnet almannatrygginga
Lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar eru mikilvægt öryggisnet fyrir þá sem fá lágan lífeyri úr hefðbundnum lífeyrissjóðum, t.d. vegna fjarveru af vinnumarkaði, lágra launa eða minni réttindaávinnslu á fyrstu tveimur áratugum almennu lífeyrissjóðanna. Öllum, sem uppfylla skilyrði um 40 ára búsetu á Íslandi, er tryggður lífeyrir vel umfram fátæktarmörk.

Lífeyrisgreiðslur í framtíðinni
Greiðslur lífeyrissjóðanna munu fara hækkandi á komandi áratugum og samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verður að meðaltali um þriðjungi hærri en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris. Jafnframt mun hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar) fara vaxandi.

Í rannsókninni var megináhersla lögð á útreikning lífeyris sem hlutfalls af meðalævitekjum (lífeyrishlutfall) og lokalaunum, svo og á samanburð við ýmis viðmið. Ísland kemur almennt mjög vel út úr þessum samanburði og er í flestum tilvikum ofarlega á lista OECD.

Lífeyrishlutfall samtryggingardeilda

Miðað við meðal ævitekjur Allir 35-39 ára 60-64 ára
Lífeyrishlutfall 64% 64% 61%
Fjöldi með lífeyrishlutfall < 56% 32% 27% 42%

 

Veikleikar líka metnir
Rannsóknin beindist einnig að því að greina veikleika lífeyriskerfisins og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiði um nægan lífeyri.

Niðurstaðan sýnir að þeir, sem hafa verið virkir á vinnumarkaði í 40-45 ár, sem er algengasta lengd starfsævi hér á landi, munu ná öllum viðmiðum um nægjanleika lífeyrissparnaðar. Hins vegar er allnokkur hópur fólks sem nær ekki viðmiðum, fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki greitt nægilega lengi í lífeyrissjóð. Einnig hefur það áhrif að eldra fólkið, sem könnunin nær til, naut minni ávinnslu réttinda framan af starfsævinni.

Í skýrslu um íslenskan hluta rannsóknarinnar eru fjögur atriði nefnd sem veikleikar:

  • Lífeyrir er almennt talinn lágur um þessar mundir.
  • Verulegur munur er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði en jöfnunaráhrif almannatrygginga draga úr þeim mun.
  • Sterk tekjutenging almannatrygginga og lífeyristekna .
  • Margir ná ekki viðmiði um 56% lífeyrishlutfall úr samtryggingarsjóðum (einkum vegna rofs í iðgjaldasögu).

 

Heildar lífeyrishlutfall (%) með öllum stoðum lífeyris

Miðað við meðal ævitekjur Karlar Konur 35-39 ára 60-64 ára
Lífeyrishlutfall (LH): Samtrygging 62% 64% 84% 59%
LH: Samtrygging + TR 89% 105% 93% 93%
LH: Samtrygging + TR + Séreign 97% 111% 103% 99%

Í skýrslunni er bent á mögulegar úrbætur, svo sem að

  • auka sveigjanleika í lífeyristöku og iðgjaldagreiðslum, til þess að fólk geti bætt sér upp slaka iðgjaldasögu á yngri árum.
  • samræma lífeyriskerfi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera.

Nýja rannsóknin er hluti af alþjóðlegu verkefni þar sem gerður er samanburður á nægjanleika lífeyris (e. retirement savings adequacy) fólks á aldrinum 35-64 ára á vinnumarkaði árið 2012. Verkefnið var fjármagnað með styrk frá Evrópusambandinu.

Fjármálaeftirlitið sótti um styrkinn í samvinnu við OECD og var ábyrgðaraðili þess. Landssamtök lífeyrissjóða voru aðalsamstarfsaðili Fjármálaeftirlitsins um rannsóknina.