Íslendingar vinna lengur og fara síðar á eftirlaun en aðrir.

Íslendingar vinna lengur og fara síðar á eftirlaun en aðrir.

Íslendingar skera sig úr að mörgu leyti þegar borin eru saman lífeyriskerfi hér og í öðrum OECD-ríkjum. Við vinnum til dæmis að jafnaði lengi eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð, sem er mjög sérstakt í alþjóðlegum samanburði.

Stefán Halldórsson, verkefnisstjóri, brá upp áhugaverðum glærum um atvinnuþátttöku og lífeyristökualdur þegar hann kynnti á dögunum nýja greinargerð um samanburð lífeyriskerfa á Íslandi, í Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð á Grandhóteli.

Á meðfylgjandi súluriti sést að Íslendingar á aldrinum 55-59 ára eru í áberandi meira mæli virkari á vinnumarkaði en jafnaldrar þeirra í samanburðarríkjunum fjórum (bláar súlur). Þetta breytist lítið sem ekkert á Íslandi og í Hollandi þegar litið er til næsta aldurshóps, 60-64 ára (rauðar súlur), en í hinum þremur ríkjunum hefur virku fólki á þessum aldri á vinnumarkaði snarfækkað. 

Þegar svo komið er í elsta flokkinn, 65-69 ára (grænar súlur), er meirihlutinn enn á vinnumarkaði á Íslandi en langflestir eru hættir að vinna í öllum hinum ríkjunum.

Á súluritinu hér fyrir neðan er sýnt hvenær fólk fer að jafnaði á eftirlaun. Opinber eftirlaunaaldur er 65 ár í Bretlandi, Danmörk og Svíþjóð, 65,2 ár í Hollandi og 67 ár á Íslandi.

 

Í ljós kemur að fólk í hinum ríkjunum er almennt hætt að vinna ÁÐUR en það nær opinberum eftirlaunaaldri, nema hvað sænskir karlar vinna að jafnaði örlítið umfram „löggiltan“ eftirlaunaaldur.

Íslendingar vinna hins vegar lengi eftir að þeir geta farið á eftirlaun, karlar í 69,2 ár samkvæmt nýjustu upplýsingum en konur í 68,2 ár.

Af sjálfu leiðir að Íslendingar eru skemur á eftirlaunum en hinar þjóðirnar, það er að segja árin, sem við eigum eftir ólifuð þegar við förum á eftirlaun, eru færri en gerist annars staðar. Hollenskar konur eru til dæmis að jafnaði í um 23 ár á eftirlaunum en þær íslensku hins vegar einungis í um 18 ár. Þarna munar heilum fimm árum!

Stefán Halldórsson nefndi líka að það væri fjórum árgöngum færra í lífeyristökuhópnum á Íslandi en gerðist í samanburðarríkjunum. Lífeyrisbyrðin væri að sama skapi þyngri þar en hér.

Íslendingar skera sig þannig úr svo um munar.

 

Opna samantektina á vefsniði

Opna samantektina á pdf sniði

Glærur Stefáns Halldórssonar frá kynningarfundi 7. mars 2017