Út er komin samantekt sem starfshópur á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða hefur unnið að þar sem íslenska lífeyriskerfið er borið saman við kerfi fjögurra annarra Evrópulanda, Englands, Hollands, Svíþjóðar og Danmerkur.
Þrátt fyrir hlutfallslega lág opinber framlög til ellilífeyris kemur íslenska lífeyriskerfið vel út hvað tekjuhlutföll varðar í samanburðinum af tveimur ástæðum:
Samanburðurinn byggir að mestu á gögnum frá OECD – Efnahags og framfarastofnuninni og er gerður með tvennum hætti. OECD hefur reiknað út væntan lífeyri sem nýir starfsmenn fá þegar kemur að opinberum lífeyristökualdri, miðað við gildandi lög og reglur 2013. Einnig birtir stofnunin tölur um ráðstöfunartekjur aldurshópa, fátæktarmörk og tekjudreifingu á árinu 2013 sem notaðar eru í samanburði á kjörum eldri borgara í löndunum fimm.
OECD birtir einnig fjölbreytt gögn um lífeyriskerfin, aldurssamsetningu og atvinnuþátttöku íbúa í löndunum fimm sem notuð eru í samanburðinum.
Ísland er með afgerandi hæst hlutfall ellilífeyris úr söfnunarkerfum (starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði). Í hinum löndunum fjórum kemur meirihluti lífeyris úr opinberum gegnumstreymiskerfum.
Á Íslandi er jöfnuður í tekjum meiri en í hinum löndunum, hér eru hlutfallslega færri undir fátæktarmörkum og lífeyrisþegar koma allvel út hvað þetta varðar í samanburði við aðra landsmenn og við lífeyrisþega hinna landanna.
Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.
Á Íslandi eru útgjöld hins opinbera til ellilífeyris sem hlutfall af landsframleiðslu mun minni en í hinum löndunum fjórum. Að hluta má rekja þetta til þess að hlutfall eldri borgara af heildarmannfjölda er lægra en í samanburðarlöndunum.