Ísland í NOREX samstarfið

Í dag skrifaði Verðbréfaþing Íslands undir viljayfirlýsingu um að ganga til liðs við NOREX. NOREX var stofnað af dönsku og sænsku kauphöllinni í janúar 1998 með áherslu á sameiginlegan norrænan verðbréfamarkað

Lykilorð NOREX eru: Sameiginlegt viðskiptakerfi og sameiginlegar viðskiptareglur. Frá því í júní á síðasta ári hafa danska og sænska kauphöllin notað sama viðskiptakerfi fyrir hlutabréf og samræmdar viðskiptareglur. Í haust munu skuldabréfaviðskipti fara fram í sama kerfi. Hans-Ole Jochumsen, forstjóri dönsku kauphallarinnar og varaformaður NOREX, segir: „Markmið okkar verða æ mikilvægari. NOREX hefur ekki eingöngu háleit markmið heldur vilja til að ná þeim. NOREX skrifaði undir viljayfirlýsingu með kauphöllinni í Osló í nóvember 1999 og nú þegar íslenska kauphöllin verður meðlimur í NOREX, lítur út fyrir að samtökin séu í góðum vexti og stækki landfræðilega." Stefán Halldórsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands hf., segir: ,,Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, og má m.a. rekja þann vöxt til aukinnar einkavæðingar og fjölda nýskráninga félaga. Nú eru 74 félög skrá á Verðbréfaþingi. Við vonumst til að með NOREX samstarfinu muni tvö af okkar helstu vandamálum verða úr sögunni. Annars vegar tökum við í notkun nýtt öflugt viðskiptakerfi. Hins vegar fá erlendir fjárfestar greiðari aðgang að íslenskum markaði og hérlendir fjárfestar að erlendum mörkuðum. Við verðum minnsta kauphöllin í samstarfinu, en NOREX er þannig byggt upp að VÞÍ getur haft áhrif á framtíðarþróunina. Því er það stórt framfararskref fyrir Verðbréfaþing að ganga til liðs við NOREX." NOREX vonast til að samstarfið stuðli einkum að því að fjölga þingaðilum og þá ekki síst svokölluðum fjaraðilum. Þeim hefur fjölgað úr fjórum í sautján frá því í júní 1999. Fjölgun þeirra aðila sem hafa aðgang að hinum norræna markaði mun stuðla að meiri seljanleika og betri verðmyndun á markaði.


Sameiginleg fréttatilkynning kauphallanna í Kaupmannahöfn, Reykjavík og Stokkhólmi