Hvernig verður lífeyriskerfið árið 2020?

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða hefur sent frá sér stefnumótun fyrir samtökin. Þar segir svo m.a. varðandi greiningu á núverandi stöu og framtíðarsýn um lífeyriskerfið árið 2020: Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á traustum grunni og sterkum og samheldnum samtökum, þar sem lögð er áhersla á langtímavöxt kerfisins og traust á milli kynslóða.

Á fulltrúaráðsfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, sem haldinn var í gær, var kynnt stefnumótunarvinna stjórnar LL. Sérstaka athygli vakti greining stjórnarinnar á núverandi stöðu og framtíðarsýn um lífeyriskerfið árið 2020.


Í greinargerð stjórnarinnar segir m.a.:


Rammalöggjöfin um lífeyrissjóðina, þar sem m.a. er kveðið á um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og eftirlit með starfsemi sjóðanna er einn af hornsteinum lífeyriskerfisins.


Landssamtök lífeyrissjóða sjá fyrir sér að á næstu 20 árum fækki lífeyrissjóðunum verulega með samruna, vegna aukinna krafna um áhættudreifingu og stærðarhagkvæmni.


Íslenska lífeyrissjóðakerfið mun áfram byggja á þremur meginþáttum; skylduaðild allra starfandi manna að lífeyrissjóðum, fullri sjóðsöfnun, og samtryggingu sjóðfélaga vegna ævilangra eftirlauna, sem einnig veitir þeim og fjölskyldum þeirra tryggingu fyrir tekjumissi af völdum orkutaps og andláts.


Réttindaávinnsla lífeyrissjóðanna er í dag mismunandi af ýmsum ástæðum og sjóðirnir móta á næstu árum lífeyrisréttindi sín með hliðsjón af stöðu sinni og þörfum sjóðfélaga.


Með auknum lífslíkum þjóðarinnar þarf að huga að hærri lífeyrisiðgjöldum. Líkur eru á því að eftir 15 til 20 ár verði lífeyrisiðgjöld þannig samsett að þau auki möguleika sjóðfélaga á sveigjanlegum starfslokum. Hugsanlegt er að örorkulífeyrir verði sjálfstæð tryggingareining, sem rekin verði í einhvers konar samvinnu lífeyrissjóða og ríkisvalds.


Líkur eru á því að á næstu árum færist lán vegna íbúðakaupa í auknum mæli til fjármálafyrirtækja, en sjóðfélagalán frá lífeyrissjóðunum tíðkist áfram. Þá mun upplýsingagjöf lífeyrissjóðanna aukast verulega og tengslin við sjóðfélaga eflast að sama skapi. Þetta mun skapa nýja og jákvæða ímynd fyrir sjóðina, einkum hjá sjóðfélögum sem njóta eftirlauna.


Um helmingur eigna lífeyrissjóðanna verður í ávöxtun erlendis. Við mat á eignum lífeyrissjóðanna heldur sú þróun áfram að meta skuli öll verðbréf á markaðsverði í ársreikningum sjóðanna.


Stjórnir lífeyrissjóðanna verða ýmist skipaðar með virkri þátttöku í fulltrúalýðræði eins og nú er eða með beinu vali sjóðfélaga. Með aukinni hlutabréfaeign þurfa lífeyrissjóðirnir að gæta hagsmuna sinna í auknum mæli í þeim hlutafélögum, sem þeir eiga hluti í og þeir verða virkari en nú er á aðalfundum hlutafélaga.


Fjölmiðlar og aðrir aðilar sem fjalla um lífeyrismál á opinberum vettvangi munu betur gera sér grein fyrir mikilvægi lífeyriskerfisins fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið í heild og umræða um lífeyrismál verður sjálfsagður þáttur í umfjöllun um almenn lífsgæði þjóðfélagsþegnanna.