Hvernig er þróun og eðlilegur vöxtur lífeyrissjóðanna gagnvart fjárfestingagrein laganna um starfsemi lífeyrissjóðanna háttað? Hverjir eru annmarkar við sölu hlutabréfa ríkissjóðs? Hvernig er aðkoma lífeyrissjóðanna að einkavæðingu opinberra fyrirtækja? Erindi á fulltrúaráðsfundi LL 5. okt. 1999.
Formaður - góðir fundarmenn! Í máli mínu ætla ég að koma inn á hvernig þróun og eðlilegum vexti lífeyrissjóðanna eru settar skorður í fjárfestingagrein laganna um starfsemi lífeyrissjóðanna, nefna annmarka við sölu hlutabréfa ríkissjóðs og jafnframt rekja hvernig aðkomu lífeyrissjóðanna að einkavæðingu opinberra fyrirtækja eru viss takmörk sett - en fram undan eru stór verkefni á því sviði, eins og sala á Landssímanum og 85% eignarhlut ríkissjóðs í ríkisbönkunum tveimur. Það er áhugavert að vera hér í dag ásamt Hreini Loftssyni formanni einkavæðingarnefndar til þess að fjalla um spurninguna hvort lífeyrissjóðirnir hafi hlutverki að gegna í einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar. Leiðir okkar Hreins lágu saman haustið 1992 við sölu ríkissjóðs á hluta sínum í Þróunarfélagi Íslands. Eignarhlutur ríkisins var 100 milljónir að nafnverði sem nam 29% af hlutafé félagsins. Hlutabréfin voru auglýst til sölu - en ekkert tilboð barst í hlutinn. Einu viðbrögð til einkavæðingarnefndar var bréfstúfur frá Sambandi almennra lífeyrissjóða og Landssambandi lífeyrissjóða þar sem óskað var eftir viðræðum um kaup á hlut ríkisins í félaginu. Viðræðunum lauk með því að tólf lífeyrissjóðir keyptu hlut ríkisins á genginu 1,30 eða á 130 milljónir króna. Eignarhlutur lífeyrissjóðanna í Þróunarfélaginu - nú 7 árum síðar - nemur 1.340 milljónum að markaðsverði en á tímabilinu hefur félagið keypt stærstan hluta Draupnissjóðsins og sameinað hann Þróunarfélaginu auk þess sem félagið hefur hagnast vel á liðnum árum - eða samanlagt um tæpa 2 milljarða á síðustu 5 árum. Hlutabréfin sem lífeyrissjóðirnir keyptu af ríkissjóði fyrir 7 árum hafa sýnt 23% árlega raunávöxtun yfir tímabilið. Þessa sögu segi ég hér vegna þess að hún sýnir að hagsmunir ríkissjóðs og lífeyrissjóðanna áttu saman í þessu máli. Þannig var ljóst að enginn vildi kaupa þegar bréfin voru auglýst til sölu. Þegar slík aðferð hafði verið reynd gekk einkavæðingarnefnd til viðræðna við lífeyrissjóðina og fékk ágætt verð fyrir bréf ríkissjóðs. Síðan var það okkar að vinna úr framtíð félagsins og hefur sú vinna skilað viðunandi árangri. Lífeyrissjóðirnir áttu síðan aðkomu að sölu ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar á hlutabréfum í Jarðborunum á árinu 1994 og 1995 ásamt Draupnissjóði, Eignarhaldsfélaginu Alþýðubankinn og Þróunarfélaginu. Nokkrir lífeyrissjóðir ásamt Draupnissjóði og Eignarhaldsfélaginu Alþýðubankinn tóku þátt í kaupum á eignarhlut ríkissjóðs í SR-mjöli. Í erindi sem ég flutti í vor á aðalfundi Verðbréfaþings Íslands sagði ég meðal annars: "Það er aftur á móti íhugunarefni hvernig markvisst er staðið að sölu ríkisstofnana með þeim hætti að lífeyrissjóðunum er nánast gert ókleyft að vera þar þátttakendur. Er þetta heppileg þróun? Ég tel að svo sé ekki. Lífeyrissjóðir í nágrannalöndunum eru taldir sjálfsagðir þátttakendur í einkavæðingu hvers konar og þátttöku þeirra fagnað. En með því að standa að sölu ríkisfyrirtækja með þessum hætti eru möguleikar lífeyrissjóðanna til að auka hlutabréfaeign sína innanlands takmarkaðir. Þannig leggjast á eitt fjárfestingarhömlur í lögum og viðhorf stjórnmálamanna til eignaraðildar lífeyrissjóðanna að hlutafélögum." Það sem var tilefni hugleiðinga minna á aðalfundi Verðbréfaþingsins var einkum tvennt: · að tiltekin fjárfestingarákvæði í lögum um lífeyrissjóði voru farin að hafa hamlandi áhrif á möguleika sumra lífeyrissjóða til fjárfestinga · og jafnframt að ég tel að heppilegra hefði verið, bæði frá sjónarhóli ríkisins og lífeyrissjóðanna, að standa með öðrum hætti að sölu á hlutabréfum ríkisins í FBA og nefni Lyfjaverslun ríkisins sem dæmi um hvernig hægt er að gera fyrirtæki að munaðarleysingja við vissar aðstæður. Mun ég nú útskýra hvað ég átti við. Nokkrir lífeyrissjóðir eru þegar komnir að eignarmörkum hlutafjáreignar í félögum sem miðast við 35% af höfðustól. Þannig eru erlend hlutabréf í eignasöfnum einhverra lífeyrissjóða farin að nálgast 30% af heildareignum og standa þeir sjóðir illa að vígi með nýfjárfestingar í innlendum hlutabréfum. Jafnvel eru þess dæmi að lífeyrissjóðir hafi þurft að losa um hlutabréf til þess að halda eignahlutföllum innan tilskyldra marka. Þetta er slæm staða sem dregur úr ávöxtun lífeyrissjóðanna og gengur þannig þvert á hagsmuni sjóðfélaganna. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa nú þegar 40% eigna bundna erlendum gjaldmiðlum og eru því í þeirri stöðu að þurfa að losa um hækkandi erlendar eignir til þess að halda eignarviðmiðanir laganna. Þessir lífeyrissjóðir hafa jafnframt afar takmarkaða möguleika til innlendra hlutabréfafjárfestinga. Umræða hefur átt sér stað á vettvangi stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða um fyrrgreint vandamál og er breytinga vonandi að vænta á lögunum. Síðara álitamálið snéri að því hvernig staðið var að sölu hlutabréfa í Lyfjaversluninni og þá ekki síður Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Nú er það svo að nokkrar aðferðir eru hugsanlegar við sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Meðal aðferða sem notaðar hafa verið hér landi má nefna: 1. almennt útboð hlutabréfa t.d. Lyfjaverslun Íslands að öllu leyti og sala á 49% hlut í FBA 2. hlutabréf í fyrirtæki seld í einu lagi til eins aðila eða til ákveðins kaupendahóps t.d. núverandi sölutilraun á 51% hlut í FBA 3. ný hlutabréf í opinberu fyrirtæki sett á markað án þess að hin eldri séu seld t.d. hlutafjáraukning í Landsbanka og Búnaðarbanka Salan á Lyfjaverslun Íslands þótti takast vel séð frá sjónarhóli stjórnmálamannanna þótt leiða mega líkur að því að standa hefði mátt að sölu fyrirtækisins þannig að meiri verðmæti fengjust fyrir félagið og jafnframt um leið að það yrði ekki að munaðarleysingja eins og reyndin varð að sölu lokinni. Þannig voru bréfin seld í tvennu lagi, fyrst í nóvember 1994 og aftur í lok janúar 1995. Ekki var hugað að því að selja bréfin í tveimur hlutum þar sem almenningi yrði boðnir tilteknir hlutar á fyrirframákveðnu verði og síðan stofnanafjárfestum á öðru og hærra gengi eða þeim gefinn kostur á að bjóða í hlutina. Afleiðing þessa var að ríkisjóður varð af tekjum og að ekki myndaðist sterkur hópur kjölfestufjárfesta í félaginu þar sem eignarhlutir dreifðust á of marga smáa hluthafa. Þannig einkenndi upplausn og stefnuleysi fyrstu rekstrarár félagsins eftir söluna og það er fyrst nýlega að festa sýnist vera að skapast um rekstur þess félags. Söluaðferðin á hlutabréfum í Fjárfestingabanka atvinnulífsins er blanda leiða eitt og tvö, þ.e. fyrst almennt útboð fyrir ári og síðan sölutilraun í einu lagi sem nú stendur yfir. Í skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu á árunum 1996 til 1999 má lesa að skiptar skoðanir hafi verið uppi um hvaða söluaðferð skyldi notuð. Nefndin lagði til að 30% hlutafjár bankans yrði boðið í áskriftarsölu en 19% í tilboðssölu. Þannig hefði mátt hámarka söluverðið ásamt því að ná því markmiði að kjölfestufjárfestar fengjust strax að bankanum. Í skýrslunni segir "það sjónarmið sem hins vegar réð var að þar sem allt kapp skyldi leggja á að selja almenningi hlutafé í bankanum og í ljósi mikillar þátttöku almennings í sölu hlutabréfa í Landsbankanum þá ætti að hafa sem mest framboð í áskriftarsölunni en selja eftirstöðvarnar í tilboðssölu." Jafnframt segir í skýrslunni "Á þessum tímapunkti áttu jafnvel bjartsýnustu menn ekki von á því að allt það sem í boði var myndi seljast í fyrsta áfanga." Mikil barátta hefur síðan átt sér stað um hlutina í FBA og ekki tilefni til þess að ræða þá atburðarás hér á fundinum. En ljóst er að betur hefði verið farið að tillögu nefndarinnar um sölu á hlutabréfunum. Örugglega hefði fengist hærra verð fyrir hlutinn og jafnframt er það mín skoðun að með þeirri söluaðferð hefðu jafnframt strax komið að bankanum kjölfestufjárfestar og meiri friður ríkt um bankann en reyndin hefur sýnt. Það nýmæli var viðhaft í tengslum við sölu á Fjárfestingabankanum að leitað var til erlendra aðila til þess að vinna verðmat á hlutabréfunum í FBA. Fram fór útboð í þessu skini meðal fjögurra virtra alþjóðlegra fyrirtækja og fyrir valinu varð ráðgjafafyrirtækið Arthur Andersen. Fram kemur í áðurnefndri skýrslu einkavæðingarnefndarinnar að við verðmatið hafi fyrst og fremst verið miðað við núvirt tekjustreymi en aðrar aðferðir voru einnig notaðar til samanburðar. Og áfram segir í skýrslunni: "Þegar niðurstaða verðmatsins lá fyrir gerði framkvæmdanefnd um einkavæðingu tillögu til iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra um gengi á bréfunum. Lagt var til að almenningi yrði boðið að kaupa hlutabréfin í FBA á genginu 1,4 og féllust ráðherrarnir á þessa tillögu nefndarinnar." Nú, u.þ.b. ellefu mánuðum síðar, er fjárfestum boðið að gera tilboð í 51% hlutinn miðað við lágmarksgengið 2,80. Þannig er ekki liðið heilt almanaksár í rekstri bankans þegar hlutabréf ríkissjóðs eru boðin á 100% hærra verði en þegar erlendu sérfræðingarnir gáfu einkavæðingarnefndinni ráðleggingar sínar. Ágætu fundarmenn! Fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa ekki verið mjög margir á liðnum árum þó miklar breytingar til batnaðar hafi orðið á allra síðustu árum. Þannig hefur hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna framan af áratugnum ekki verið jafn mikil og æskilegt hefði verið. Stórstígar breytingar hafa átt sér stað til batnaðar með tilkomu heimilda til kaupa á erlendum verðbréfum sem lífeyrissjóðirnir fengu ásamt öðrum á árinu 1994. Möguleikann til erlendra fjárfestinga hafa lífeyrissjóðirnir réttilega notað til þess að auka hlutabréfaeignina í verðbréfasöfnum sínum. En nú er fyrrgreindra takmarkana farið að gæta. Þær hafa jafnframt strax áhrif á möguleika sumra lífeyrissjóða til þátttöku í tilboðsgerð í eignarhlutann í FBA. Jafnframt þurfa stjórnendur lífeyrissjóðanna að hafa í huga við stórkaup innlendra hlutabréfa að með hverjum slíkum kaupum þrengjast möguleikar viðkomandi lífeyrissjóða til þátttöku í einkavæðingu ríkisbankanna og/eða Landssímans. Það yrði nokkuð einkennileg niðurstaða - þegar rykið sest að nokkrum árum liðnum varðandi sölu ríkisfyrirtækjanna - ef það sýndi sig að eignarhald íslensku lífeyrissjóðanna verði hverfandi. Að eignarhaldi þeirra í hlutabréfum verði að mestu fullnægt með erlendri hlutabréfaeign. Þá verður fróðlegt að heyra viðhorf þeirra sem um tíu ára skeið hafa haldið fram þeirri bábylju að lífeyrissjóðirnir myndu að fáum árum liðnum eiga landið og miðin. Ekkert er fjær sanni. Auðvitað ættu lífeyrissjóðirnir að geta verið kröftugir eignaraðilar að fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði hér á landi. Það þykir bæði æskilegt og eðlilegt í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.