Hver verður raunávöxtun lífeyrissjóðanna árið 2000?

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna mun ekki mælast í tveggja stafa tölu að þessu sinni. Meðalávöxtun lífeyrissjóðanna árið 1999 var sú besta frá upphafi eða 12%. Það er því að vissu leyti ósanngjarnt að bera saman raunávöxtunartölur þessa árs við árið í fyrra

Ýmsir þættir munu skipta miklu máli þegar hrein raunávöxtun sjóðanna fyrir árið 2000 verður gerð upp. Þar munar auðvitað mestu hvernig eignasöfn einstakra sjóða eru uppbyggð. Líkur eru á því að þeir lífeyrissjóðir sem eru með stærstan hluta eigna sinna í skuldabréfum sýni bestu raunávöxtun á árinu 2000. Það eru mikil viðbrigði borið saman við árið 1999 þegar slíkir sjóðir sýndu frekar slaka ávöxtun borið saman við þá sjóði, sem fjárfest höfðu mest í innlendum og erlendum hlutabréfum. Ahyglisvert er í þessu sambandi að skoða þróun húsbréfa á árinu 2000. Afföll af húsbréfum voru nánast engin í upphafi ársins en eru núna 12,6% í flokknum 98/1 og 13,3% í flokknum 98/2. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafan hækkað úr 4,7% í 6,24% í flokknum 98/1 og úr 4,67% í 5,84% í flokknum 98/2. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á raunávöxtunartölur þeirra fjölmörgu lífeyrissjóða sem færa húsbréfin á kaupkröfu. Þeir lífeyrissjóðir, þar sem húsbréfin eru vistuð í verðbréfasjóðum, munu hins vegar sýna slakan árangur að þessu sinni, þar sem bréfin eru færð á ávöxtunarkröfu en ekki kaupkröfu. Úrvalsvísitala hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands hefur lækkað um rúm 20% frá upphafi þessa árs. Vísitalan var 1.619 stig í upphafi árs og mældist hæst 1.889 stig þann 17. febrúar s.l. Úrvalsvísitalan hefur síðan lækkað mjög mikð og mælist núna um 1.289 stig, sem er eins og áður segir rúmlega 20% lækkun frá áramótum. Ljóst er að þessi þróun mun hafa neikvæð áhrif á raunávöxtunartölur lífeyrissjóðanna, sérstaklega þeirra sjóða sem hafa verið með hátt hlutfall af innlendum hlutabréfum í eignasöfnum sínum. Ef litið er til útlanda, þá hefur t.a.m. Dow Jones vísitalan lækkað um 6% frá áramótum úr 11.497 stigum í 10.803 stig og Nasdaq vístalan hefur beinlínis verið í frjálsu falli á undanförnum vikum. Vísitalan mældist 4.069 stig um síðustu áramót en er nú 2.539 stig, sem er rúmlega 38% lækkun á einu ári. Hins vegar hefur dollarinn styrkst um rúmlega 17% frá síðustu áramótum, sem mun vega að nokkru leyti upp frekar slaka raunávöxtun lífeyrssjóðanna erlendis að þessu sinni.


Nýjustu tölur í fréttinni eru frá 28. desember 2000