Hugsum málið til enda

"Fyrirfram skattlagning séreignarsparnaðar er ekki lausn heldur tilflutningur á vanda. Þannig er freistast til að „leysa“ vandamál með því að ganga á sjóði sem eiga að greiða skatta fyrir núverandi kynslóð þegar hún hættir störfum. Í stuttu máli er vandanum frestað og velt yfir á börnin okkar eða framtíðarskattgreiðendur. Til viðbótar er tekin mikil áhætta því hætt er við að margir hætti með viðbótarlífeyrissparnað af ótta við frekari skattlagningu í framtíðinni og að viðbótarlífeyris- sparnaður leggist af."
Þannig kemst Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins að orði í stuttri en hnitmiðaðri grein í Morgunblaðinu í gær.

 

Grein Gunnars birtist hér í heild sinni:

Hugsum málið til enda

Enn eru boðaðar töfralausnir til að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs. Nú er fullyrt að hægt sé að afturkalla skattahækkanir og draga úr erfiðum niðurskurði með því að skattleggja séreignar­sparnað.
Þessi lausn hljómar einföld og spennandi. En er það raunin? Nei, auðvitað ekki. Fyrirfram skattlagning séreignarssparnaðar er ekki lausn heldur tilflutningur á vanda. Þannig er freistast til að „leysa“ vandamál með því að ganga á sjóði sem eiga að greiða skatta fyrir núverandi kynslóð þegar hún hættir störfum. Í stuttu máli er vandanum frestað og velt yfir á börnin okkar eða framtíðarskattgreiðendur. Til viðbótar er tekin mikil áhætta því hætt er við að margir hætti með viðbótarlífeyrissparnað af ótta við frekari skattlagningu í framtíðinni og að viðbótarlífeyrissparnaður leggist af.
Ég er sannfærður um að flutningsmönnum tillögu um skattlagningu séreignarsparnaðar gengur gott eitt til en töfralausn þeirra á núverandi fjárhagsvanda ríkissjóðs er ekki hugsuð til enda. Þróun síðustu ára bendir til þess að eftir nokkur ár geti séreignarsparnaður verið um þriðjungur lífeyriskerfisins. Mannfjöldatölur sýna einnig að hlutfall eftirlaunaþega muni hækka hratt á sama tíma. Ef stjórnvöld ákveða að skattleggja séreignarsparnað fyrirfram munu ríki og sveitarfélög fá minni skatta í framtíðinni um leið og útgjöld þurfa að aukast vegna þjónustu við vaxandi fjölda lífeyrisþega. Hvað gera bændur þá?