Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðsins Lífiðnar fyrir árið 1999 var 14% á móti 5,1% árið 1998. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar Lífiðnar er 9,7% þau þrjú ár sem sjóðurinn hefur starfað.
Tryggingarstaðan batnar á milli ára en sjóðurinn á 86 milljónir umfram skuldbindingar um síðustu áramót á móti neikvæðri stöðu um 720 millj. í fyrra. Varðandi þessa stöðu verður þó að hafa í huga að lífeyrissjóðurinn er að veita almennt hærri lífeyrisréttindi heldur en flestir aðrir sjóðir. Heildareignir Lífiðnar voru 14,5 milljarðar um síðustu áramót og stækkaði sjóðurinn um 3,2 milljarða á árinu eða 28% á árinu. Rekstrarkostnaður lækkaði um 21% á milli ára. Heildarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum var 2,52% á árinu og lækkaði úr 3,73% fyrir árið 1998 og 4.65% fyrir árið 1997. Rekstrarkostnaður af eignum var 0,16% í fyrra á móti 0,27% fyrir árið 1998 og 0,30% fyrir árið 1997. Lífeyrir í % af iðgjöldum var 13,3%. Á árinu 1999 nutu 387 lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 126,5 millj. úr sjóðnum. Lífeyrisþegum fjölgaði um 3,2% og lífeyrisgreiðslurnar hækkuðu um 11,8%. Greiddur ellilífeyrir hækkar um 7,5 millj. á milli ára eða um 14,9%. Lífeyrisbyrði lífeyrissjóða er hlutfall lífeyrisgreiðslna á móti iðgjöldum. Á árinu 1999 var þetta hlutfall 13,3% á móti 13,7% á árinu 1998. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Lífiðnaðar er Friðjón R. Sigurðsson. Ársfundur sjóðsins verður á Hótel Sögu, Sal-A, kl. 17:00, miðvikudaginn 17. maí 2000.