Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, lækkaði mikið milli áranna 2007 og 2008 og var neikvæð um 21,8% á árinu 2008 samanborið við 0,5% á árinu 2007. Þetta kemur fram í skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2008 sem birt er á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar kemur fram að meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár hafi verið 2,5% og meðaltal sl. 10 ára 3%.
Þessar tölur eru fyllilega í samræmi við spá Landssamtaka lífeyrissjóða í apríl s.l., en þá var talið að ávöxtun lífeyrissjóðanna hefði orðið neikvæð um 21,5% í á síðasta ári.
Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.600 milljörðum króna í árslok 2008 samanborið við um 1.700 milljarða í árslok 2007. Nemur tapið um 6% sem samsvarar neikvæðri raunávöxtun um 19% miðað við vísitölu neysluverðs.
Iðgjöld lífeyrissjóðanna lækkuðu um 26% á milli ára eða úr 146 milljörðum króna í árslok 2007 í tæplega 116 milljarða króna í árslok 2008.
Meginástæða þessarar miklu lækkunar er sú að árið 2007 seldu tveir lífeyrissjóðir eignarhlut sinn í Landsvirkjun, þ.e. Lífeyrissjóðir starfsmanna Reykjavíkurborgar sem seldu hlut sinn fyrir 23,9 milljarða og Lífeyrissjóðir starfsmanna Akureyrarbæjar sem seldu hlut sinn fyrir 3 milljarða.
Útgreiddur lífeyrir var 53 milljarðar árið 2008 en var rúmlega 46 milljarðar árið 2007.
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2008 jókst um 7,5% og nam 256 milljörðum króna samanborið við 238 milljarða í árslok 2007. Séreignarsparnaður í heild nam um 16% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2008. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 32,6 milljörðum króna í 33,4 milljarða króna á árinu 2008, eða um 2,4%.
Um 8,6% af fjárfestingum lífeyrissjóðanna voru í óskráðum bréfum í árslok 2008 samanborið við um 6,1% í árslok 2007 en samkvæmt lögum höfðu lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta fyrir allt að 10% af eignum sínum í óskráðum bréfum.
Með óskráðum bréfum er átt við þau verðbréf sem ekki hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Þann 29. desember 2008 var heimild til að fjárfesta í óskráðum bréfum hækkuð í 20%. Gengisbundnar fjárfestingar námu 29% í árslok 2008 en 27% í árslok 2007.