Hrein erlend verðbréfakaup í júlí 696 m.kr.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að hrein erlend verðbréfakaup í júlí voru samtals að fjárhæð 696 m. kr. en til samanburðar voru þau um 2,6 ma.kr. í sama mánuði árið 2000.

Þróun einstakra undirliða í júlí var eftirfarandi: Hrein kaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum námu um 15 m.kr. en voru á sama tíma árið 2000 um 1,9 ma. kr. Hrein kaup á erlendum hlutabréfum námu um 621 m.kr. en voru á sama tíma í fyrra um 1,3 ma. kr. Hrein kaup á erlendum skuldabréfum námu um 59 m.kr. en voru á sama tíma í fyrra neikvæð um 550 m.kr. Hrein kaup í liðnum óflokkuð viðskipti (önnur verðbréf og afleiður) námu um 1 m.kr. en voru á sama tíma í fyrra neikvæð um 10 m.kr. Litlar breytingar urðu á erlendum hlutabréfavísitölum í júlí þrátt fyrir að töluverðar dagsveiflur hafi orðið á einstaka mörkuðum. Að sögn Seðlabanka Íslands, tölfræðisvið, er júlímánuður sérstakur að því leyti að hann mótast af bið fjárfesta eftir milliuppgjörum auk þess að vera vinsæll til sumarfría. Samdráttur í hreinum kaupum innlendra aðila með erlend verðbréf, um 1,9 ma.kr., samanborið við sama mánuð árið 2000 verður eigi skýrður með áðurnefndum atriðum heldur koma þar til fleiri þættir. Þar ber einna hæst þau umskipti sem orðið hafa á fjármálamörkuðum heimsins samhliða breyttum aðstæðum í efnahagsumhverfinu.