Hrein eign Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja hækkaði um 18% á árinu 2005. - Tryggingafræðileg staða góð.

Hrein eign beggja deilda sjóðsins til greiðslu lífeyris var 17.777 milljónir í árslok og hækkaði um 2.715 milljónir á árinu, eða um 18%. Hrein nafnávöxtun sjóðsins var 16,8% og hrein raunávöxtun varð 12,2% á árinu. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 5,9% og síðustu 10 ára 6,5%. Tryggingafræðileg staða batnaði mjög á árinu og var jákvæð um 3,9% í árslok, en var neikvæð um 10,8% í ársbyrjun.

Í árslok voru verðbréf með breytilegum tekjum 47% af fjárfestingum, eignir í erlendum gjaldmiðlum 28% og hlutfall óskráðra fjárfestinga 5,7%. Innlend hlutabréf voru 18,3% af fjárfestingum og skiluðu 42,4% raunávöxtun, en erlend hlutabréf og verðbréfasjóðir voru 27,3% og báru 9,9% raunávöxtun.

Iðgjaldatekjur samtryggingardeildar voru 553,8 milljónir og hækkuðu um 18% frá fyrra ári.  Alls greiddu 2.169 sjóðfélagar iðgjöld til deildarinnar á árinu.   Lífeyrisgreiðslur voru 382,2 milljónir og hækkuðu um 11,3% frá fyrra ári.  Lífeyrisþegar voru alls 944 og fjölgaði um 81 á árinu. Hrein eign séreignadeildar var 126 milljónir í árslok og jókst um 35% á árinu.  Rétthafar í deildinni voru 1.832 að tölu.

Hrein raunávöxtun séreignadeildar var 8,2%; á Safni I var hún  3,7% og á Safni II var hún 9,9% .
Skuldabréf séreignadeildar eru gerð upp á markaðsverði, en einnig er hlutfall erlendra mynta í fjárfestingum deildarinnar hærra en í samtryggingardeild, sem gerir eignir séreignadeildar næmari fyrir breytingum á gengisvísitölu krónunnar.   

Frá 1. júlí 2005 tók sjóðurinn upp blandað kerfi jafnrar og aldurstengdrar réttindaávinnslu. Öll áunnin réttindi fram til þess tíma haldast óbreytt og bera fulla verðtryggingu. Lífeyrisaldur sjóðsins er nú 67 ár en sjóðfélagar geta flýtt töku ellilífeyris til 62ja ára aldurs eða frestað töku hans allt til sjötugs. Þó er hægt að flýta töku ellilífeyris til sextugs vegna þeirra réttinda sem áunnin voru fram til 1. júlí 2005. 

Hinn mikla bata á tryggingafræðilegri stöðu má til helminga þakka breyttu kerfi réttindaávinnslu og ágætrar raunávöxtunar sjóðsins á árinu.

Hrein eign umfram skuldbindingar vegna áunninna réttinda nam 2.081 milljón í árslok, eða 13,1% umfram skuldbindingar. Hrein eign og áætlað verðmæti framtíðariðgjalda voru 989 milljónir umfram heildarskuldbindingar í árslok 2005, eða 3,9% umfram heildarskuldbindingar.