Héraðsdómur Reykjavíkur: Lífeyrir ekki skattlagður að hluta sem fjármagnstekjur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu ellilífeyrisþega, sem vildi greiða fjármagnstekjuskatt af þeim hluta lífeyris, sem talinn var ávöxtun af innborguðu iðgjaldi. Í rökstuðningi dómsins segir að  óumdeilt sé að lífeyrissjóðir, sem starfa á grundvelli samtryggingar, sundurgreini ekki lífeyrisgreiðslu til lífeyrisþega, hvorki hlutfallslega né með tilgreiningu fjárhæða, þannig að sjá megi á skilagrein eða með öðrum hætti hvað sé höfuðstóll og hvað ávöxtun. Greiðslan sé aðeins innt af hendi sem lífeyrir, ósundurgreint, enda sé hvorki í lögum né samþykktum lífeyrissjóða að finna ákvæði sem mæli fyrir um slíka skiptingu lífeyrisgreiðslunnar eða vísbendingu um að gerður sé greinarmunur á þessu tvennu við útborgun lífeyris.

Var úrskurður skattstjóra um að greiða skyldi tekjuskatt af lífeyri staðfestur. Dómurinn taldi að skattlagning lífeyristekna væri að öllu leyti lögmæt. Hafnaði dómurinn því að skattlagningin bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Ingimundur Einarsson kvað upp dóminn.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.