Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Stafi lífeyrissjóð af kröfu um að lánsveð sem veitt var með samþykki eiganda yrði ógilt. Lántaki var með lágar tekjur en skuldaði árið 2008 þegar lánið var tekið rúmlega 145 milljónir. Lánið var að fjárhæð 17 milljónir og heimilaði íbúðareigandi veðsetninguna með samþykki maka síns. Krafan var byggð á þeim forsendum að lífeyrissjóðurinn hefði vanrækt svo verulega þær skyldur sem hvíla á sjóðnum sem lánveitanda að ekki sé unnt að byggja á veðleyfinu. Bent var á að veðsalinn væri eldri kona sem hefði ekki sérþekkingu eða menntun á sviði fjármála eða lánveitinga og hefði ekki haft möguleika á að komast að erfiðri stöðu lántakans.
Fram kemur að þegar lánið var veitt hafi lántakinn verið á 26. aldursári en hafði nánast engar reglulegar mánaðartekjur. Hann hafði engu að síður áður fjármagnað með lántökum kaup á tveimur bifreiðum og tveimur fasteignum. Skuldir hans samkvæmt skattframtali fyrir árið 2008 hafi verið rúmlega 145 milljónir en tekjur 2,4 milljónir árið 2006 og um hálf milljón árin 2007 og 2008.
Var byggt á því að lífeyrissjóðnum hefði borið að kanna fjárhagsstöðu mannsins áður en hann fékk lánið.
Í forsendum dómsins kemur fram að allir sem greiða í Stafi lífeyrissjóð ættu rétt á láni og hafi lántaki í þessu tilviki uppfyllt öll skilyrði samkvæmt lánareglum sjóðsins. Hann hafði greitt iðgjöld, var ekki á vanskilaskrá og hafði staðið í
skilum með annað lán sem hann hafði tekið hjá lífeyrissjóðnum. Jafnframt hafi hann boðið veð í fasteign til tryggingu á greiðslu lánsins. Eigandi fasteignarinnar undirritaði veðskuldabréf með samþykki um veðsetninguna auk þess að undirrita sérstaka yfirlýsingu þar sem m.a. hafi komið fram að lífeyrissjóðurinn kunni að óska
eftir sölu eingarinnar verði ekki staðið í skilum með lánið. Þar segir:
„Ég hef kannað fjárhagsstöðu lántakanda og kynnt mér hæfi hans til að endurgreiða lánið. Ég hef einnig kynnt mér greiðslubyrði lánsins samkvæmt meðfylgjandi yfirliti. Mér er einnig fullkunnugt um að lífeyrissjóðurinn hefur
ekki og mun ekki kanna fjárhagsstöðu skuldarans og hefur ekki lagt neinn dóm á fjárhagslega getu hans til að endurgreiða lánið.“
Fram kemur að lánið sé veitt fyrir gildistöku laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Dómurinn fellst ekki á að það leysi veðsalann undan ábyrgð að hafa ekki aflað sér upplýsinga um fjárhagslega stöðu lántaka. Það að hafa látið undir höfuð leggjast að kynna sér efni umræddra skjala leysi aðila ekki undan ábyrgð. Stafir lífeyrissjóður var því sýknaður í málinu.