Háskóli Íslands gerir samning um fjármögnun á stöðu dósents í tryggingalæknisfræði.

Háskóli Íslands hefur gert samning við Tryggingastofnun ríkisins, Landssamtök lífeyrissjóða og Samband íslenskra tryggingafélaga um fjármögnun á starfi dósents í tryggingalæknisfræði við læknadeild HÍ. Markmiðið er að efla rannsóknir og kennslu á þessu sviði en um er að ræða stöðu dósents í fullu starfi til fimm ára. Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir hefur verið ráðinn í stöðuna.

Við undirritun samningsins: Stefán B. Sigurðsson, deildarforseti læknadeildar, Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga.

Dósentinn fær aðstöðu við læknadeild og nýtur réttinda sem einn af dósentum hennar. Miðað er við að starfsskyldur Sigurðar skiptist með venjubundnum hætti milli rannsókna, kennslu og stjórnunar. Gert er ráð fyrir því að staðan breytist í prófessorsstöðu á samningstímanum.


Sigurður mun stunda rannsóknir á sviði tryggingalæknisfræði, m.a. á grundvelli gagna frá Tryggingastofnun, lífeyrissjóðum og vátryggingafélögum og í samvinnu við þessa aðila og fræðimenn.

 Rannsóknirnar geta m.a. fjallað um forsendur örorku sem metin er hjá TR vegna lífeyristrygginga almannatrygginga, orsakir orkutaps samkvæmt niðurstöðum örorkumats hjá lífeyrissjóðunum, forsendur matsgerða samkvæmt skaðbótalögum vegna slysa, samspil heilsufars og félagslegra aðstæðna í örorku/orkutapi, viðfangsefni í sjúkra-, slysa- og líftryggingum og viðfangsefni í sjúklingatryggingu.

Ennfremur er honum ætlað að stunda kennslu og fjalla m.a. um uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi og gerð læknisvottorða.

 

Ráðið er í stöðuna frá 1. mars næstkomandi.