Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að fela Tryggva Þór Herbertssyni forstöðumanni Hagfræðistofnunar að rannsaka ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti.
Rannsóknin verður unnin í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Hagfræðistofnun skilar heilbrigðismálaráherra skýrslu um málið í janúar 2005.
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að öryrkjum hafi fjölgað um 40% á fimm ára tímabili, frá 1998 til 2003. Ennfremur segir að heildarbætur vegna öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega hafi hækkað á sama tíma úr rúmlega fimm milljörðum króna (1998) í rúmlega tólf milljarða (2003), eða um 7 milljarða króna.
"Ráðist er í þessa rannsókn vegna örrar fjölgunar öryrkja undanfarin misseri og til að skýra hvað veldur þeim miklu breytingum, sem komu í ljós í athugun sem gerð var af heilbrigðis-og ryggingamálaráðuneytinu í sumar þegar áhrif aldurstengdu örorkubótanna voru metin," segir í frétt ráðuneytisins.