Hæstiréttur sýknaði Lífeyrissjóðinn Gildi

Lífeyrissjóðnum Gildi var heimilt að skerða lífeyrisgreiðslur til öryrkja vegna lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum, að því er segir í dómi Hæstaréttar. Örorkulífeyrisþegi höfðaði mál gegn Gildi lífeyrissjóði eftir að lífeyrissjóðurinn skerti lífeyrisgreiðslur til hans. Réttur til örorkulífeyris skyldi, sem fyrr, skyldi aldrei vera hærri en sem næmi þeim tekjumissi sem sjóðfélagi hefði sannanlega orðið fyrir sökum örorku. 

Bótaþeginn hélt því fram fyrir dómi að Gildi hefði verið óheimilt að skerða örorkulífeyri hans.. Fallist var á kröfuna fyrir héraðsdómi þar sem ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu hefði verið vanhæfur til að staðfesta breytingar á reglum Gildis. Hæstiréttur taldi hins vegar að ekki hefði reynt á hæfi ráðuneytisstjórans í málinu, þar sem hann hefði hvorki staðfest breytingarnar eða komið að meðferð eða undirbúningi málsins.

Þá taldi bótaþeginn ennfremur að lífeyrisréttur hans væri eign, sem nyti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár. Hæstiréttur félst ekki á að stjórnarskrá girtu fyrir skerðingu lífeyris með þeim hætti sem gert var.

Gildi taldi óhjákvæmilegt að vinna að því að almannatryggingar tækju með einum eða öðrum hætti við stærri hluta örorkutrygginga, en það væri forsenda fyrir því lífeyrissjóðir gætu staðið myndarlega við það meginhlutverk að tryggja ellilífeyri sjóðfélaga. Taldi Hæstiréttur að málefnlaegar ástæður hefðu þannig búið að baki breytingum á reglum sjóðsins.

Var lífeyrissjóðurinn því sýknaður af kröfu örorkulífeyrisþegans um að ekki skyldi taka tillit til greiðslna frá almannatryggingum við útreikning lífeyrisgreiðslna frá sjóðnum. Ljóst er að þessi dómur Hæstaréttar hefur fordæmisgildi fyrir aðra lífeyrissjóði sem búa við sambærilegar reglur við mat á tekjutapi örorkulífeyrisþega. 

Lögmaður Gildis var Gestur Jónsson en bótaþegans Ragnar Aðalsteinsson.