Hæstiréttur staðfestir rétt konu til hlutar í lífeyrisréttindum fyrrv. eiginmanns.

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um rétt konu til hlutdeildar í lífeyrisréttindum fyrrverandi eiginmanns hennar. Konan og maðurinn slitu samvistum eftir átján ára samband, þar af 15 ár í hjúskap, og hafði konan verið heimavinnandi á samvistartímanum og sinnt heimilisstörfum og uppeldi barna þeirra.

Hafði eiginkonan því nánast engra tekna aflað á tímabilinu eða lífeyrisréttinda sér til handa. Maðurinn var hins vegar í öruggu starfi, með háar tekjur og veruleg lífeyrisréttindi. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum sóknaraðila utan skipta. Þegar fjárgreiðsla til varnaraðila er ákveðin á grundvelli 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga verður auk þeirra atriða, sem héraðsdómur tilgreinir, að líta til aldurs varnaraðila og þeirra kosta, sem gera verður ráð fyrir, að henni muni nýtast til öflunar eigin lífeyrisréttinda. Við svo búið verður að telja, að lækkun héraðsdóms á kröfu varnaraðila sé réttmæt, og verður hinn kærði úrskurður staðfestur, segir í dómi Hæstaréttar í gær. Í dómi héraðsdóms er miðað við áunnin lífeyrisréttindi mannsins 1. janúar 2001 og skv. útreikningi tryggingafræðings nam höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttindanna 8,5 milljónum króna. Konan krafðist helmings þeirrar fjárhæðar en í dómnum segir að þegar litið er til þess hagræðis að konan fengi hlutdeildina greidda nú þegar og sú fjárhæð myndi ekki stofn til greiðslu tekjuskatts hjá henni var talið rétt að lækka fjárhæðina í 2,5 milljónir. Einnig var litið til aldurs konunnar sem er 44 ára og þeirra kosta sem gera yrði ráði fyrir að henni myndu nýtast til öflunar eigin lífeyrisréttinda.