Á ráðstefnu ASÍ um velferðarkerfið sem haldin var í gær, kom fram sú eindregna skoðun ræðumanna, að ekki mætti einskorða bætur almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Með þeirri aðferð væri í raun og veru verið að lækka lágmarksbæturnar. Því bæri að hækka verulega grunnlífeyririnn, þ.e. hækka hið almenna öryggisnet velferðarkerfisins.
Einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á svið velferðar- og lífeyrismála, Joakim Palme, dró í erindi sínu dökka mynd af því ástandi sem myndaðist þegar velferðarkerfi væru aðeins hugsuð sem aðstoð fyrir þá allra verst settu í þjóðfélaginu. Afleiðing slíks kerfis væri sú að mati Palme að velferðarkerfið væri svelt, vandkvæði tengd neikvæðri stimplun styrkþega kæmi upp auk fátæktargildra. Því meira sem bætur eru lágtekjumiðaðar, því lægri verður upphæðin sem er til ráðstöfunar, þ.e. því meiri áhersla verður lögð á að beina bótum aðeins til hinna fátækustu í samfélaginu, því minni árangri nær velferðarríkið í því að draga úr ójöfnuði. Í lokaorðum Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar, kom fram að innlegg Joakims Palme og yfirsýn væri ferskur gustur inn í umræðuna um velferðarkerfi. Það væri einfaldlega lífsnauðsyn fyrir framtíð velferðarkerfisins að teknar væru sameiginlegar ákvarðanir um það hvert við viljum stefna í meginatriðum. Með því að sýknt og heilagt væri verið að fikta við einstaka þætti velferðarkerfisins væri sú hætta fyrir hendi að verið væri að gera á því grundvallarbreytingar án þess að það sé rætt eða tekin um það ákvörðun sem sátt er um meðal þjóðarinnar. Mikilvægasta niðurstaða þessarar ráðstefnu væri að slík vinnubrögð skuli tilheyra fortíðinni. Við verðum einfaldlega að ná sátt um markmiðin, kostnaðinn og leiðirnar. Niðurstaðan byggist ekki síst á því hvaða gildismat við viljum hafa í heiðri, sagði Sigurður að lokum. Magnús L. Sveinsson, ráðstefnustjóri, dró í raun og veru niðurstöður ráðstefnunnar saman í tveimur orðum, sem væru: "Hækkum öryggisnetið!" Það eru orð að sönnu með hliðsjón af þeim erindum sem flutt voru á ráðstefnunni.