Guðmundur Gunnarsson kjörinn formaður stjórna Stafa

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, var í gær kjörinn formaður stjórnar Stafa lífeyrissjóðs. Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir úr röðum launamanna, þar á meðal Guðmundur. Í stjórn Stafa eru þrír skipaðir af Samtökum atvinnulífsins til tveggja ára í senn og þrír fulltrúar launamanna kjörnir til tveggja ára í senn. Kjörtímabil fulltrúa SA er hálfnað en kjörtímabili fulltrúa launamanna lauk á ársfundinum í gær. Þrír nýir stjórnarmenn voru kjörnir: Guðmundur Gunnarsson, sem lét af störfum sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands fyrir fáeinum vikum, Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks í rafiðnaði og Viðar Örn Traustason, starfsmaður Samskipa.

Fyrir í stjórn Stafa af hálfu atvinnurekenda eru Baldur Á. Steinarsson, framkvæmdastjóri Rafmiðlunar hf., Guðsteinn Einarsson, kaupfélagsstjóri í Borgarnesi, og Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Nýja stjórnin skipti með sér verkum strax að loknum ársfundi. Guðmundur Gunnarsson tók við formennsku af Guðsteini Einarssyni en Guðsteinn var kjörinn varaformaður stjórnar.

Betri afkoma en óviðunandi samt

„Afkoma Stafa lífeyrissjóðs árið 2010 var betri en árið 2009 en samt langt frá því að vera viðunandi,“ sagði Guðsteinn Einarsson, fráfarandi formaður stjórnar Stafa, meðal annars þegar hann flutti skýrslu stjórnarinnar á ársfundinum.

 

Hrein raunávöxtun Stafa var 0,1% á árinu 2010 en hún var hins vegar neikvæð um 4,9% árið 2009. Stjórnarformaðurinn sagði að afkoma sjóðsins skýrðist fyrst og fremt af því að íslenskt efnahagslíf hefði tekið hægar við sér en vonast var eftir.

Á ársfundinum var kynnt niðurstaða tryggingarfræðilegrar úttektar á Stöfum. Heildarskuldbinding sjóðsins reyndist vera neivæð um 8,1% í lok árs 2010, sem er innan þeirra marka sem lög heimila.