Greiðslustofa lífeyrissjóða sett á laggirnar.

Fyrir skömmu var haldinn stofnfundur Greiðslustofu lífeyrissjóða. Stofnaðilar eru 14 lífeyrissjóðir auk Landssamtaka lífeyrissjóða. Greiðslustofan hefur umsjón með útborgun lífeyris til rúmlega 20 þúsund bótaþega.

Meginhlutverk Greiðslustofu lífeyrissjóða er eftirfarandi: að hafa milligöngu um greiðslu lífeyris til lífeyrisþega, útsendingu lífeyristilkynninga og að greiða staðgreiðsluskatt af lífeyrisgreiðslum til innheimtumanns hins opinbera, að annast umsýslu skattkorta lífeyrisþega, að hafa umsjón með uppfærslu nafnaskrár lífeyrissjóða, að úrskurða lífeyri fyrir þá lífeyrissjóði sem þess óska og viðhalda úrskurðum. að annast lögboðna upplýsingagjöf lífeyrissjóða til opinberra aðila. Auk þess vinnur Greiðslustofa lífeyrissjóða að sérgreindum verkefnum fyrir einstaka lífeyrissjóði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnar hennar. Tildrög að stofnun Greiðslustofu lífeyrissjóða má rekja til þess að í febrúarmánuði s.l. fór Strengur h.f. þess á leit við LL að samtökin hefðu forgöngu um að kannaðir yrðu möguleika á því að stofnað verði sérstakt félag eða á annan hátt fundið fyrirkomulag um greiðslumiðlun lífeyrisgreiðslna o.fl., sem fram til þessa hafði verið á forræði lífeyrisdeildar Reiknistofu lífeyrissjóða. Ástæðan fyrir þessari beiðni má rekja til þess að um síðustu áramót sameinuðust Strengur h.f.og Reiknistofa lífeyrissjóða, en óeðlilegt þótti að lífeyrisdeildin flyttist til Strengs h.f., sem væri fyrst og fremst hugbúnaðarfyrirtæki. Jafnframt var talið eðlilegt að LL hefði eitthvað um þróun þessa máls að segja, þar sem allt frá stofnun samtakanna hafi verið um að ræða ákveðinn samrekstur lífeyrisdeildarinnar og LL. Skrifstofa Greiðslustofu lífeyrissjóða er að Sætúni 1, Reykjavík, sími 563 6400. Framkvæmdastjóri er Matthildur Hermannsdóttir.