Gott gengi Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.

Hrein raunávöxtun Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda var jákvæð um 1,6% á síðasta ári. Gott gengi Söfnunarsjóðsins má m.a. rekja til þess að erlendar eignir námu einungis 14% af heildareignum.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda er ætlaður öllum launþegum og sjálfstætt starfandi mönnum sem eiga ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóðum. Hrein eign lífeyrissjóðsins nam rúmum 19 milljöðrum króna um síðustu áramót og hafði hækkað um 12,5% á milli ára. Söfnunarsjóðurinn yfirtók eignir og skuldbindingar Lífeyrissjóðs leigubifreiðastjóra á síðasta ári að fjárhæð 165 m.kr. Eignir umfram heildarskuldbindingar námu 884 m.kr. eða 2,8%. Hrein raunávöxtun nam eins og áður segir 1,6% á árinu 2000 miðað við 6,5% á árinu 1999. Ávöxtunin lækkaði á milli ára m.a. vegna aukins vægis hlutabréfa í eignasafni sjóðsins. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 árin nam 6,1%. Eignir í erlendum gjaldmiðlum nam 14% miðað við 10% árið áður. Þetta hlutfall er nokkuð lágt miðað við lífeyrissjóði í svipuðum stærðarflokki. Rekstrarkostnaður af eignum nam einungis 0,12%. Fjöldi virkra sjóðfélaga var óbreyttur milli ára eða rúmlega 7.600 manns. Fjöldi lífeyrisþega nam 1.662 á síðasta ári sem er umtalsverð fjölgun frá árinu 1999 þegar fjöldi lífeyrisþega var 1.248. Ársfundur Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda verður haldinn þriðjudaginn 22. maí n.k. kl. 16.00 að Skúlagötu 17 í Reykjavík.