Á undanförnum árum hefur Sameinaði lífeyrissjóðurinn unnið að því að koma af stað fjölbreyttari og raunhæfari endurhæfingarúrræðum fyrir örorkulífeyrisþega.
Flestir lífeyrissjóðir hafa fundið fyrir því að úrræði hefur skort, þegar kemur að endurhæfingu örorkulífeyrisþega. Áætlað er að á árinu 1998 hafi lífeyrissjóðir og almannatryggingakerfið greitt um 7,8 miljarð króna í örorkulífeyri. Um verulegar fjárhæðir er því um að ræða og því skiptir miklu máli að vel sé hugað að endurhæfingarúrræðum. Í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur Sameinaði lífeyrisjóðurinn sett af stað tilraunaverkefni og stofnað hefur verið félag um verkefnið, Janus Endurhæfing ehf. Í dag eru 15 einstaklingar í þessu verkefni og fyrirhugað er að taka inn 10 einstaklinga til viðbótar nú í haust. Hér er um nýjung að ræða í endurhæfingu. Samvinna sérfræðinga á heilbrigðis- og menntasviði hefur ekki verið reynd á þennan hátt áður svo vitað sé. Endurhæfing sem þessi er tiltölulega ódýr, sveigjanleg og nýtir þá innviði þjóðfélagsins sem þegar eru til staðar. Verði árangur sá sem til er ætlast, hafa stjórnvöld og aðilar atvinnulífsins í höndum niðurstöður sem hægt er að nota til þess að koma á endurhæfingu og endurmenntun örorkulífeyrisþega með tiltölulegum ódýrum og kerfisbundnum hætti.