Raunávöxtun Lífeyrissjóðs Vesturlands var 10,61% árið 2003. Hrein raunávöxtun þegar búið er að taka tillit til rekstrarkostnaðar var 10,44%. Í árslok 2003 var hrein eign til greiðslu lífeyris tæpir 9,6 milljarðar en það er hækkun um 16% á milli ára.
Hlutabréf í eigu sjóðsins gáfu góða ávöxtun á árinu, þannig var nafnávöxtun innlendra hlutabréfa í stýringu sjóðsins 45,2% og raunávöxtun 41,4%. Til samanburðar var raunávöxtun heildarvísitölu aðallista Kauphallar Íslands 40,7%.
Þrátt fyrir nokkra styrkingu krónunnar var ávöxtun erlendra hlutabréfa í eigu sjóðsins góð. Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa í íslenskum krónum var 20% og raunávöxtun 16,6%. Raunávöxtun heimsvísitölu hlutabréfa (MSCI) í íslenskum krónum var 12,1%. Hlutabréf nema 24,8% af fjárfestingum sjóðsins í árslok.
Raunávöxtun skuldabréfa sjóðsins var 5,9%, en sjóðurinn gerir upp skuldabréf miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi. Vægi skuldabréfa er 72,2% af fjárfestingum sjóðsins. Bundin innlán sem nema 3% af fjárfestingum skiluðu 5,6% raunávöxtun. Iðgjöld ársins námu 502 milljónum, sem er 3,7% aukning frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 303 milljónum, en það er 7,2% hækkun frá fyrra ári.
Tryggingafræðileg úttekt í lok ársins 2003 sýnir að eignir umfram áfallnar skuldbindingar sjóðsins nema 4,4% af áföllnum skuldbindingum. Heildarskuldbindingar umfram eignir eru hins vegar 2,6%. Þetta er töluvert betri staða en á árinu 2002 en þá voru heildarskuldbindingar umfram eignir 6,4%. Meginástæða betri tryggingafræðilegrar stöðu er góð ávöxtun sjóðsins árið 2003.
Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár er 4,16%. Meðaltal hreinnar raun-ávöxtunar síðastliðin 10 ár er 5,91%.
Ársfundur Lífeyrissjóðs Vesturlands verður haldinn 20. apríl n.k. kl. 17 að Hótel Framnesi, Grundarfirði.