Vegna góðrar afkomu og sterkrar eignarstöðu Lífeyrissjóðs Norðurlands hefur verið ákveðið að hækka lífeyrisréttindi sjóðfélaga um 14,3%. Raunávöxtun sjóðsins nam 22,8% á síðasta ári.
Vegna góðrar afkomu og sterkrar eignastöðu Lífeyrissjóðs Norðurlands hefur verið ákveðið að hækka varanlega útreikningsstuðla elli- og örorkulífeyris um 14,3% sem þýðir samsvarandi hækkun lífeyrisréttinda. Í árslok 1999 nam hrein eign Lífeyrissjóðs Norðurlands til greiðslu lífeyris rúmum 18,7 milljörðum króna og hafði aukist milli ára um tæpa fjóra milljarða sem sem svarar 26,6% frá fyrra ári. Ávöxtun lífeyrissjóðsins nam 22,8% sem er sú besta frá upphafi. Í séreignardeild sjóðsins nam ávöxtunin 21,6% í Safni I og 34% í Safni II. Tryggingafræðileg afkoma Lífeyrissjóðs Norðurlands árið 1999 var 1.444 milljónir króna og er þetta besta afkoma sjóðsins frá upphafi. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands er Kári Arnór Kárason.