Góður fjárfestingarárangur hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga í fyrra.

Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga var 14,95% á árinu 2003 sem svarar til 11,73% hreinnar raunávöxtunar samanborið við 2,51% neikvæða hreina raunávöxtun árið 2002. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ár er 3,51% og síðustu 10 ár 4,83%.

Heildareignir Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga í árslok 2003 námu 12,9 milljörðum króna. Ávöxtun allra eignaflokka sjóðsins var góð á árinu. Raunávöxtun skuldabréfa í eigu sjóðsins var 5,62% en raunávöxtun innlendra hlutabréfa var 38,58%.  Raunávöxtun erlendra hlutabréfa sjóðsins var 17,62% í íslenskum krónum.
Gripið var til gengisvarna á síðasta ári til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif af styrkingu krónunnar á erlendar eignir sjóðsins sem skiluðu sjóðnum 65 m.kr.
Af verðbréfaeignum sjóðsins eru 63,7% í skuldabréfum, 14,2% í innlendum hlutabréfum og 22,1% í erlendum hlutabréfum.