Eftirlaunasjóður norska ríkisins, Olíusjóðurinn svokallaði, skilaði 3,9% ávöxtun á fyrsta fjórðungi ársins 2010, sem svarar til 103 milljarða norskra króna. Frá þessu var greint í Osló í morgun, 7. maí. Verðmæti eigna sjóðsins telst nú vera 2.763 milljarðar norskra króna, 63% í hlutabréfum og 37% í skuldabréfum.
Janúar var slakur hjá sjóðnum en mun betur fór að ganga í febrúar og mars. Þetta er heildarmyndin en þegar rýnt er betur í heimskort fjárfestinga Olíusjóðsins kemur í ljós að hann sækir ávöxtunina fyrst og fremst á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og í Asíu. Evrópumarkaðir eru lakari og þar er áberandi óvissa um gang mála á næstu mánuðum og misserum, einkum í sunnanverðri álfunni, vegna mikilla og vaxandi skulda ríkissjóðanna.
Staðan í skuldugum Evrópuríkjum er ráðamönnum Olíusjóðsins verulegt áhyggjuefni og ekki að furða. Sjóðurinn á þannig mikilla hagsmuna að gæta vegna fjárfestinga í Portúgal, Grikkalandi, á Írlandi og Spáni. Í öllum þessum ríkjum eru ríkissjóðir stórskuldugir og reknir með dúndrandi halla.
Trúlega horfa eignastýrendur Olíusjóðsins ekki síst til Spánar þar sem þeir hafa fjárfest hátt í 150 milljarða norskra króna í skuldabréfum og hlutabréfum. Í lok árs 2009 átti sjóðurinn til dæmis hlut í bankanum Banco Santander á Spáni að verðmæti 22 milljarðar norskra króna (bókfært í lok árs 2009). Gengi hlutabréfa í bankanum hefur fallið um fjórðung frá áramótum.
Þá er það púðurtunnan Grikkland með ískyggileg, efnahagsleg kólguský yfir sér og heilt samfélag í upplausn. Þar hefur Olíusjóðurinn fjárfest hátt í 17 milljarða norskra króna, þar af 10 milljarða norskra króna í ríkisskuldabréfum.
Heimild: viðskiptavefurinn e24.no