Góður árangur hjá Janus Endurhæfing.

Eins og kunnugt er hefur Janus ehf. unnið að endurhæfingu örorkulífeyrisþega um nokkurt skeið. Í reynd hefur verið um að ræða tilraunaverkefni, sem m.a. lífeyrissjóðirnir hafa komið að. Árangur verkefnisins er framar björtustu vonum. Af 29 þátttakendum sem tekið hafa þátt frá upphafi hafa 10 einstaklingar hafið atvinnu á almennum vinnumarkaði eða farið í nám.

Fjórir einstaklingar reyndust þurfa á öðrum úrræðum að halda. Níu einstaklingar eru áfram á örorkubótum. Fimm eru áfram í endurhæfingu hjá Janusi og einn er í atvinnuleit. Aldursdreifingin er 24-57 ára (meðaltal 40 ára) og hafa einstaklingarnir verið að meðaltali fjögur ár (1–11 ár) frá almennum vinnumarkaði. Mælanlegur árangur er á framförum allra þátttakanda hvað varðar jákvætt sjálfsmat og trú á eigin getu. Þess ber að geta að í upphafi var þess ekki krafist að aðalmarkmið þátttakandans væri að fara út á almennan vinnumarkað en það er gert í dag. Góð samvinna er milli Janusar Endurhæfingar og Iðnskólans í Reykjavík og er samstarfið einn af hornsteinum endurhæfingarinnar. Starfssemi Janusar fylgir skólastarfi Iðnskólans að miklu leyti. Litið er á verk-/bóknámsdeildir Iðnskólans í Reykjavík sem endurhæfingardeildir Janusar. Sérsniðin þjálfun/nám er í boði fyrir þátttakendur Janusar en henti aðrar deildir eða önnur úrræði betur er reynt að koma á móts við þátttakandann þar sem öll endurhæfingin miðast við þarfir hans. Tíma í heilsu-/sjálfseflingu og líkamsþjálfun verða þó allir að sækja þar sem sú fræðsla og þjálfun sem þar fer fram er annar hornsteinn endurhæfingarinnar. Hjá Janusi starfa iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraþjálfari og læknir með sérfræðiþekkingu í heimilislækningum. Aðrir sérfræðingar eru kallaðir inn eftir þörfum hverju sinni. Teknir eru inn 24 þátttakendur á ári, tólf á hverri önn. Eingöngu er tekið við þátttakendum sem sendir eru frá stofnunum sem hafa þjónustusamning við Janus. Síðastliðið sumar undirrituðu fimm lífeyrissjóðir og Tryggingastofnun undir þjónustusamning við Janus og eru það ánægjuleg tímamót fyrir starfssemina. Starfsfólk Janusar hefur síðastliðna mánuði unnið mikið að þróun hugmyndafræði og innra og ytra skipulagi starfsseminnar. Það hefur skilað sér í góðum árangri og vakið athygli jafnt innan lands sem utan. Greinilegt er að starfssemi Janusar hefur fengið góðan hljómgrunn og mætir óuppfylltri þörf sem er fyrir hendi í samfélaginu. Ljóst er að með hinum góða árangri Jansuar er hægt að koma stórum hluta öryrkja aftur inn á vinnumarkaðinn þar sem þeir geta í senn notið lífsfyllingar í starfi og snúið aftur til almenns og betra lífs en áður. Auk þess er líka um að ræða verulegan fjárhagslegan sparnað hjá þeim lífeyrissjóðum sem gert hafa þjónustusamninga við Janus, sem endurspeglast í lækkun á örorokulífeyrisgreiðslum í þeim tilvikum sem hægt er að koma viðkomandi bótaþegum aftur út á vinnumarkaðinn.