Góður árangur hjá Hlíf: 3,9% raunávöxtun í fyrra.

Raunávöxtun Lífeyrissjóðsins Hlífar var 3,9% í fyrra sem telja verður góðan fjárfestingarárangur miðað við aðstæður á fjármagnsmörkuðum. Meðaltal raunávöxtunar síðustu fimm árin nam 11,9%, sem verður að telja mjög góðan árangur.

Þessar upplýsingar og fleiri koma fram í nýbirtum ársreikningi lífeyrissjóðsins. Iðgjaldatekjur á árinu 2000 námu 136 m.kr., sem er 10,6% hækkun frá fyrra ári. Að meðaltali greiddu 401 sjóðfélagi til sjóðsins á árinu 2000 frá 231 launagreiðenda. Alls greiddu 513 einstaklingar til sjóðsins á árinu 2000. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok 2000 3.157 m.kr. Hækkun frá fyrra ári nam 309 m.kr. eða 10,8%. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem miðast við árslok 2000 eru eignir umfram áfallnar skuldbindingar 26,9% en eignir umfram heildarskuldbindingar 4%. Eignir í íslenskum krónum námu 68% af heildareignum og í erlendum gjaldmiðlum 32%. Reiknuð gengisbreyting á erlendum eignum sjóðsins í árslok var jákvæð um 61 m.kr. Tap af vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningum nam hins vegar 56 m.kr. á árinu 2000. Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Hlífar er Valdimar Tómasson.