Góð raunávöxtun lífeyrissjóða samkvæmt milliuppgjörum.

Á heimasíðum nokkurra lífeyrissjóða koma fram upplýsingar samkvæmt milliuppgjörum um um góða raunávöxtun á þessu ári. Greint verður frá 8 mánaða uppgjöri Sameinaða lífeyrissjóðsins, Lífeyrissjóðsins Lífiðnaðar og Lífeyrissjóðs Suðurnesja og 6 mánaða uppgjöri Lífeyrissjóðsins Framsýnar, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og Lífeyrissjóðs lækna.  

Í milliuppgjöri Sameinaða lífeyrissjóðsins fyrir 8 fyrstu mánuði ársins kemur fram jákvæður viðsnúningur í ávöxtun Sameinaða lífeyrissjóðsins. Nafnávöxtun síðustu 12 mánuði var 6,8% og raunávöxtun 4,6%. Ef ávöxtun á árinu 2003 verður sú sama og hún var í janúar til ágúst 2003 verður nafnávöxtun sjóðsins á árinu 2003 10,7% og raunávöxtun 8,9%. Þessi góða ávöxtun skýrist fyrst og fremst af mikilli hækkun á erlendum verðbréfum sjóðsins.

Uppgjöri er lokið fyrir fyrstu 8 mánuðina hjá Lífeyrissjóðnum Lífiðn. Ljóst er að mikill viðsnúningur er á ávöxtun sjóðsins eftir að undanfarin tvö ár hafa sýnt neikvæða ávöxtun. Hrein raunávöxtun fyrir tímabilið er: 6,4% Hrein raunávöxtun á ársgrundvelli er: 9,7% Ávöxtun sjóðsins stefnir því í að vera 9,7% í árslok ef sú þróun sem verið hefur á árinu helst út árið. Þessi ágæta ávöxtun skýrist í megin dráttum af góðri ávöxtun á innlendum og erlendum hlutabréfum.

Raunávöxtun Lífeyrissjóðs Suðurnesja fyrstu 8 mánuði ársins var 9,2%. Eignaskipting Lífeyrissjóðs Suðurnesja í lok ágúst 2003 var með eftirfarandi hætti. Skuldabréf 54% Sjóðfélagalán 9% Erlend hlutabréf 25% Innlend hlutabréf 7% Bankainnistæður 4% Annað 1% .

Raunávöxtun samtryggingardeildar Lífeyrissjóðsins Famsýnar fyrstu sex mánuði 2003 var 9,53%, á ársgrundvelli og nafnávöxtun á tímabilinu var 6,01%. Hrein eign til greiðslu lífeyris í lok júní var 56.966 milljónir. Eignir sjóðsins skiptust þannig að 86,7% voru í íslenskum krónum og 13,3% í erlendum gjaldmiðlum. Í ágúst lá fyrir sex mánaða uppgjör Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda Eignir sjóðsins til greiðslu lífeyris uxu um 9,4% frá áramótum. Nema þær í lok júní 2003 25,4 milljörðum króna. Hrein raunávöxtun, það er þegar búið er að draga frá fjárfestingargjöld og rekstrarkostnað var 6,4%.

Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur gengið frá endurskoðuðu milliuppgjöri fyrir tímabilið 1. janúar 2003 til 30. júní 2003.  Samkvæmt því var hrein raunávöxtun sameignardeilda 4,12% sem samsvarar 8,24% á ársgrundvelli.  Hrein raunávöxtun séreignadeilda (á markaðsvirði) var á sama tímabili fyrir leið I. 7,90%, fyrir leið II 7,10% og fyrir leið III 3,20%.  Þetta samsvarar um 15,8%, 14,20% og 6,4% hreinni raunávöxtun á ársgrundvelli.  Þetta er mikill viðsnúningur frá síðustu misserum þegar raunávöxtun var neikvæð.

Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs lækna var 5,25% fyrrirhluta ársins sem samsvarar um 10,8% raunávöxtun á ársgrundvelli. Allir verðbréfaflokkar skiluðu góðri ávöxtun og gáfu skuldabréf hæstu ávöxtunina en þau hækkuðu um 7,8% á tímabilinu.