Góð milliuppgjör lífeyrissjóða.

Gildi lífeyrissjóður, sameinaður sjóður Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, hefur gengið frá milliuppgjöri fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2005. Hrein raunávöxtun sjóðsins á ársgrundvelli fyrstu sex mánuði ársins var 15,1%. Þá nam raunávöxtun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga 15,05% á ársgrundvelli. 

Milliuppgjör frá Gildi lífeyrissjóður

 Hrein raunávöxtun sjóðsins á ársgrundvelli fyrstu sex mánuði ársins var 15,1%, en fjárfestingartekjur á tímabilinu námu tæpum 13 milljörðum króna. Þessa góðu afkomu má einkum rekja til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins, en þau skiluðu 58% raunávöxtun á ársgrundvelli.  Innlend skuldabréf gáfu 4,7% ávöxtun og erlend verðbréf 9%.  Almennt hafa skilyrði á verðbréfamörkuðum verið mjög góð það sem af er árinu. 

 

gjöld til sjóðsins voru 3,1 milljarðar króna fyrstu 6 mánuði ársins og greiddur lífeyrir nam 2 milljörðum króna. 

 

Hrein eign Gildis til greiðslu lífeyris nam 158,4 milljörðum króna í lok júní 2005 og hefur hækkað um 13,9 milljarða frá ársbyrjun.  Eignir sjóðsins skiptast þannig að 56% eru í innlendum skuldabréfum, 22,5% í innlendum hlutabréfum og 21,5% í erlendum verðbréfum.   Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins.

 

Milliuppgjör frá Lífeyrissjóði Vestfirðinga

 

Mjög góð ávöxtun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga fyrstu sex mánuði ársins 2005. Raunávöxtun sjóðsins nam 15,05% á ársgrundvelli.  Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris hækkaði um 1.842.- millj. kr., eða um 10,3% á  tímabilinu janúar – júní  og var í lok júní   2005 að fjárhæð  19.693.millj. kr.-

 

Eignasafn sjóðsins saman stendur af verðbréfum með föstum tekjum 45,0%, verðbréfum með breytilegum tekjum 50,7%, veðlánum 3,0% og öðrum eignum 1,3%. Skipting eignasafnsins eftir gjaldmiðlum er þannig að 78,0%  er í ísl. kr. og 22,0% er í erlendum gjaldmiðlum.

 

Raunávöxtun séreignardeildar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga fystu sex mánuði ársins  2005 er 15,60% á ársgrundvelli. Eignasafn séreignardeildar sjóðsins saman stendur af ríkisskuldabréfum, hlutabréfum og erlendum hlutdeildarskírteinum.

 

Skipting eignanna eftir gjaldmiðlum er þannig að 93,0% er í íslenskum kr. og 7,0% er í erlendum gjaldmiðlum. Þessa góðu ávöxtun sjóðsins á árinu 2005 má rekja til hagstæðra skilyrða á verðbréfamörkuðum sérstaklega á innlendum hlutabréfamarkaði.