Hreinar eignir samtryggingarsjóðs Lífeyrissjóðsins Framsýnar jukust um rúmlega 1 milljarð króna árið 2002 og var raunávöxtun neikvæð um tæp 1,2%. Alls námu eignir samtryggingarsjóðs 53,5 milljörðum króna í lok síðasta árs en 52,4 milljörðum í árslok 2001. Heildarávöxtun séreignarsjóða var rúmlega 9,4% og jókst hrein eign sjóðsins um 171 milljón króna, eða 179%.
Alls námu lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga tæpum 2 milljörðum króna á síðasta ári og er það 10,7% aukning miðað við árið á undan. Samtals var greiddur lífeyrir til um 9.000 einstaklinga og nemur fjölgun lífeyrisþega um 4,2% milli ára.
Síðustu þrjú ár hefur árferði á fjármálamörkuðum verið erfitt vegna almennrar niðursveiflu í efnahagslífi Vesturlanda. Þrátt fyrir þetta nemur fimm ára raunávöxtun heildareigna tæplega 3,6%. Raunávöxtun séreignarsjóða nam tæplega 7,3% árið 2002 en lækkandi gengi hlutabréfa á erlendum mörkuðum olli því að raunávöxtun samtryggingarsjóðs var neikvæð um tæp 1,2% á árinu. Veruleg hækkun á verði innlendra hlutabréfa árið 2002 vóg hins vegar að nokkru leyti upp á móti áhrifum af lækkandi gengi erlendra hlutabréfa. Þá skiluðu innlend skuldabréf í eigu sjóðsins mjög góðri ávöxtun á árinu.
Gripið var til ráðstafana á síðasta ári til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif af styrkingu krónunnar á erlendar eigur sjóðsins. Þær aðgerðir skiluðu sjóðnum um 510 milljónum króna.
Stjórn Lífeyrissjóðsins Framsýnar hefur ákveðið að lækka vexti sjóðfélagalána úr 6,2% í 5,8%. Vaxtalækkunin mun hafa áhrif á öll sjóðfélagalán, bæði gömul og ný. Á síðasta ári tóku 403 sjóðfélagar lán og nam fjárhæð þeirra 807 milljónum króna.