Raunávöxtun eigna samtryggingardeildar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga var mjög góð á árinu 2003 eða 13,2%. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok kr. 15.1 milljarðar, Hefur hún hækkað um 2.237 milljónir milli ára eða sem svarar til 17,4%. Skipting eignasafnsins í árslok eftir gjaldmiðlum er þannig að 79% er í íslenskum krónum en 21% eignanna eru í erlendum gjaldmiðlum.
Séreignadeild Lífeyrissjóðs Vestfirðinga skilaði einnig mjög góðri ávöxtun á árinu 2003. Raunávöxtun var 21,74%. Í ársbyrjun var mótuð sérstök fjárfestingarstefna fyrir séreignadeildina en eignir hennar höfðu fram að því verið ávaxtaðar með eignum samtryggingardeildarinnar.
Hrein eign séreignadeildar sjóðsins til greiðslu lífeyris var í árslok 2003 106 millj. kr. Skipting eignasafns séreignadeildarinnar í árslok eftir gjaldmiðlum er þannig að 92% er í íslenskum krónum en 8% í erlendum gjaldmiðlum. Þessa góðu ávöxtun má rekja til hagstæðra skilyrða á verðbréfa-mörkuðum bæði innalands og erlendis.
Ávöxtun á innlendum skuldabréfamörkuðum var einnig mjög góð. Samkvæmt úttekt tryggingafræðings á áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga námu áfallnar skuldbindingar tryggingadeilda sjóðsins 15.016 millj. kr. í árslok 2003 miðað við 3,5% ársvexti og að teknu tilliti til rekstarkostnaðar. Endurmetin hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris er í árslok 2003 kr. 15.700 millj. kr. eða 684 millj. kr. hærri.
Ef eignir sjóðsins í árslok 2003 eru núvirtar miðað við 3.5% ávöxtunarkröfu má ætla að mismunurinn á eignum sjóðsins og framtíðarskuldbindingum sé neikvæður um 3,6%.
Ársfundur Lífeyrissjóðs Vestfirðinga verður haldinn laugardaginn 15. maí nk. í Grunnskólanum í Súðavík og hefst hann kl. 11.00. Fundurinn er opinn öllum greiðandi sjóðfélögum og lífeyrisþegum með málfrelsi og tillögurétt.