Góð ávöxtun hjá Almenna lífeyrissjóðnum.

Árið 2003 var gott ár á helstu verðbréfamörkuðum heims. Ávöxtun Almenna lífeyrissjóðsins hefur fylgt þessari þróun og sem dæmi má nefna að raunávöxtun ævisafns II var 13,6%, sem er hæsta ávöxtun einstakrar ávöxtunarleiðar hjá sjóðnum síðan árið 1993.

  

 

 

 

 

 

 

 

Góð vöxtun var á verðbréfamörkuðum árið 2003. Mikil hækkun var á innlendum hlutabréfamarkaði og hækkaði vísitala aðallista Kauphallar Íslands um 44,5%. Erlendir hlutabréfamarkaðir tóku við sér á vormánuðum og hækkaði Nasdaq vísitalan mest eða um 50% í dollurum. Bandaríska vísitalan S&P500 hækkaði um 26,4% í dollurum en um 11,3% í íslenskum krónum þar sem dollarinn veiktist um 11,9% gagnvart íslensku krónunni á árinu.

Heimsvísitala MS hækkaði um 15,2% í íslenskum krónum. Einnig var góð ávöxtun á innlendum skuldabréfamarkaði og lækkaði ávöxtunarkrafa langra skuldabréfa um 57-76 punkta sem skilaði 7-10% gengishagnaði og hækkaði viðmiðunarvísitala skuldabréfa ævisafna I og II um 11,4%.

Eignir Ævisafns IV eru ávaxtaðar á verðtryggðum bankareikningi. Nafnávöxtun safnsins var 8,8% árið 2003 sem samsvarar 5,9% raunávöxtun.