Gildi valinn besti lífeyrissjóðurinn á Íslandi annað árið í röð að mati tímaritsins IPE.

Gildi-lífeyrissjóður hefur verið valinn besti lífeyrissjóðurinn á Íslandi árið 2006 af tímaritinu Investment & Pensions Europe (IPE).  Er þetta í annað skipti á tveimur árum sem sjóðurinn hlýtur þessi verðlaun.  IPE er fagtímarit um lífeyrismál þar sem fjallað er um allt það helsta í lífeyrismálum á hverjum tíma í Evrópu.  
Árlega fer fram verðlaunaafhending þar sem blaðið verðlaunar lífeyrissjóði sem hafa skarað framúr í sínu heimalandi eða í Evrópu.  Að þessu sinni var finnski lífeyrissjóðurinn Ilmarinen kosinn besti lífeyrissjóðurinn í Evrópu. Verðlaunin voru afhent 30. nóvember sl. á árlegri verðlaunahátið IPE sem haldin var í París.  Verðlaun þessi hafa verið afhent undanfarin 6 ár í Evrópu og er þetta í annað skiptið sem Ísland er með.

 

Gildi hlýtur verðlaunin m.a. fyrir eignastýringu (portfolio management, right asset mix and strategic decision making) og fram kemur í umfjöllun IPE að Gildi hafi sýnt framúrskarandi ávöxtun (outstanding performance) á árinu 2005 og undanfarin ár.  Rétt blanda eignaflokka hafi skilað þessum góða árangri sem leitt hafi til þess að réttindi sjóðfélaga voru aukin um 7% 1. janúar 2006.

 

Eignastýring hjá Gildi-lífeyrissjóði byggist á vali á fjárfestingarstefnu til lengri tíma þar sem m.a. er höfð til hliðsjónar aldurssamsetning sjóðfélaga, tryggingafræðileg staða og framtíðar-sjóðstreymi.  Einnig er tekið tillit til þróunar skuldbindinga sjóðsins og jafnvægis milli eigna og skuldbindinga hans þar sem áhættuþol sjóðsins er skilgreint.  Markmiðið er að auka réttindi sjóðfélaga.  Sem hluti af stefnumótandi ákvörðun hefur Gildi notað gjaldeyrisvarnir í þeim tilgangi að verja erlenda eignastöðu sjóðsins fyrir gengistapi.  Gildi var meðal fyrstu lífeyrissjóða til þess að nota gjaldeyrisvarnir (currency overlay) í uppbyggingu verðbréfasafna.  Það hefur haft í för með sér betri ávöxtun og minni sveiflur.

 


Fréttatilkynning frá Gildi lífeyrissjóður