Gildi-lífeyrissjóður hefur gengið frá uppgjöri fyrir árið 2008. Nafnávöxtun sjóðsins á árinu var neikvæð um 14,8% og hrein eign til greiðslu lífeyris var 208,9 milljarðar króna í árslok og lækkaði um 12,2% frá árslokum 2007. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt voru skuldbindingar 13% hærri en eignir þann 31.12.2008. Stjórn Gildis hefur í samráði við tryggingafræðing sjóðsins ákveðið að leggja fyrir ársfund 21. apríl nk. tillögu um 10% lækkun réttinda.
Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar m.v. vísitölu neysluverðs. Frá stofnun Gildis 1. júní 2005 hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð um 17,7% umfram hækkun vísitölunnar.
Miklir erfiðleikar á fjármálamörkuðum, bæði innanlands og utan, höfðu mikil áhrif á afkomu sjóðsins. Fall íslensku viðskiptabankanna í október 2008 vó þar þyngst, en í kjölfarið lentu einnig mörg fyrirtæki í erfiðleikum.
Erlendir hlutabréfamarkaðir voru óhagstæðir á árinu 2008 og lækkaði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) um 40,7%. Þróun á erlendum verðbréfamörkuðum það sem af er árinu 2009 hefur einnig verið sjóðnum óhagstæð. Verðbréf hafa haldið áfram að lækka í verði á sama tíma og gengi erlendra gjaldmiðla hefur lækkað gagnvart íslensku krónunni.