Gildi lífeyrissjóður kynnir afkomu síðasta árs.

Afkoma Gildis-lífeyrissjóðs árið 2009 var kynnt á mjög fjölmennum ársfundi sjóðsins í kvöld. Helstu niðurstöður uppgjörs sem kynnt var á fundinum eru þessar: Áframhaldandi erfiðleikar innlendra fjármálastofnana og fyrirtækja í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi í október 2008 halda áfram að hafa mikil áhrif á afkomu sjóðsins.
Á fundinum var m.a. borin upp tillaga sem hlotið hafði nokkra umfjöllun í fjölmiðlum síðustu daga um að stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og sjóðstjóri segðu af sér og að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn sjóðsins. Tillagan var felld með öllum greiddum atkvæðum.

Nafnávöxtun sjóðsins var 6,8% og raunávöxtun var neikvæð um 1,5%. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 227,3 milljarðar króna í árslok og hækkaði um 18,4 milljarða króna eða um 8,8% frá árslokum 2008. Fjárfestingartekjur voru 14,8 milljarðar króna að teknu tilliti til niðurfærslna skuldabréfa sem námu 10,6 milljörðum króna.

Heildarskuldbindingar sjóðsins voru 11,6% hærri en eignir í lok árs 2009 samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt. Samþykkt var að lækka áunnin réttindi um 7% og að lækkunin hjá lífeyrisþegum verði framkvæmd í tvennu lagi, 3,5% 1. júní 2010 og 3,5% 1. nóvember 2010.

Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar m.v. vísitölu neysluverðs. Réttindi voru hækkuð um 7% árið 2006 og 10% árið 2007 umfram vísitöluhækkanir, en lækkuð um 10% árið 2009. Frá ársbyrjun 2006 til mars 2010 hafa lífeyrisþegar fengið greitt 11,3% meira en þeir hefðu fengið ef greiðslur hefðu fylgt vísitölu neysluverðs og 11,6% meira en þeir hefðu fengið ef greiðslur hefðu hækkað samkvæmt launavísitölu, sjá meðfylgjandi mynd.

Iðgjöld til sjóðsins á árinu 2009 voru 10,8 milljarðar króna og lækkuðu um 4,5% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 7,9 milljörðum króna og hækkuðu um 18,2%.

Eignir sjóðsins skiptust þannig í lok árs 2009 að 58% voru í innlendum skuldabréfum, 2% í innlendum hlutabréfum, 7% í innlánum og 33% í erlendum verðbréfum.

Alls 39.672 einstaklingar greiddu iðgjöld til Gildis árið 2009. Alls eiga 177.791 einstaklingar réttindi hjá sjóðnum.

Þá kom fram á fundinum að Tryggvi Tryggvason hafi ákveðið að hætta störfum hjá Gildi sem forstöðumaður eignastýringar.  Tryggvi  mun  hins vegar áfram gegna trúnaðarstörfum tímabundið fyrir sjóðinn.